Hefur áhyggjur af praktísku hliðinni

Þorbjörn Guðmundsson, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða.
Þorbjörn Guðmundsson, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða. Ljósmynd/Steinar

Formaður Landssamtaka lífeyrissjóða segir að best hefði verið ef framsóknarmenn hefðu átt samtal við samtökin áður en þeir slógu fram jafnviðamikilli tillögu og svissnesku leiðinni í kosningaherferð sinni.

Leiðin felur í sér að ungu fólki verði heimilt að taka út það iðgjald sem það hefur lagt í lífeyrissjóð og nýta sem útborgun við íbúðarkaup. Fjárhæðin ber ekki vexti og er án afborgana. Við sölu íbúðarinnar er iðgjaldinu skilað aftur inn í lífeyrissjóðinn. Að sögn Framsóknarflokksins hefur þessi leið nýst vel í Sviss til að auðvelda fólki að eignast húsnæði. Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, gagnrýndi tillögu flokksins í samtali við RÚV.

Húsnæðisverð hefur hækkað mikið undanfarin ár.
Húsnæðisverð hefur hækkað mikið undanfarin ár. mbl.is/Ómar Óskarsson

Eins og 100% lán

„Lífeyriskerfið er býsna flókið og í því felast mikil réttindi. Mér hefur fundist að það hefði verið styrkur fyrir hugmyndina að eiga við okkur samtal áður en hún var sett fram efnislega,“ segir Þorbjörn Guðmundsson, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða, í spjalli við mbl.is.

Hann kveðst skilja útfærslu Framsóknarflokksins þannig að ungt fólk gæti með þessu móti tekið 100% lán, þar sem eigið framlag þeirra komi úr lífeyrissjóði. „Eins og íbúðaverðið er orðið hátt núna má velta fyrir sér hverjir væru tilbúnir til að lána 80%, ef þú fjármagnar 20% af þessari leið svona og það kemur ekkert annað eigið fé,“ greinir Þorbjörn frá.

Hann gerir ráð fyrir því að samtökin muni fara yfir þessa tillögu Framsóknarflokksins ef hún fær brautargengi eftir kosningarnar. Ekki síst muni þau kynna sér hvernig þessi leið hafi gengið í Sviss.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Eggert

Gríðarlega mikilvæg trygging

Mest hefur Þorbjörn áhyggjur af praktísku hliðinni varðandi tillöguna, til dæmis ef fólk verður atvinnulaust, skiptir um lífeyrissjóð eða missir starfsorku. Hann veltir fyrir sér hvaða áhrif þessi leið myndi hafa á tryggingu þeirra sem fara hana, sérstaklega ungt fólk, ef það hlýtur örorku.

„Örorkutryggingin hjá lífeyrissjóðum er gríðarlega mikilvæg trygging,“ segir hann og nefnir að hafi maður greitt í lífeyrissjóð í þrjú ár og verði varanlegur öryrki er staða manns útfærð eins og maður hefði greitt fullt iðgjald til 65 ára aldurs. „Ef þú ert fyrst og fremst að greiða lánið, ertu þá líka að afla þér réttinda?“ spyr hann. „Lífeyrissjóðirnir eru þannig að við erum að tryggja hvert annað. Ef þú ert ekki að greiða inn í þennan sameiginlega pakka er ekki hægt að ætlast til að einhver annar tryggi þig.“

Hann segir að skoða þurfi niður í kjölinn hvaða áhrif leið sem þessi hefði á einstaklinginn. „Síðan getur svo margt gerst í lífi fólks. Það geta komið upp margar breytingar sem rugla þennan feril,“ segir hann og bætir við að það yrði ekki góð staða fyrir lífeyrissjóði ef þeir þurfi að leysa íbúðir til sín vegna vanskila, miðað við að þeir séu á fyrsta veðrétti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert