Össur segir kjósendur VG vilja í ESB

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, og Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. Össur …
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, og Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. Össur segir Samfylkinguna nú hafa það í hendi sér að setja þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður sem skilyrði fyrir stjórnarþátttöku. mbl.is/Kristinn Magnússon

Össur Skarphéðinsson segir dauðafæri á ESB aðild fyrir Ísland í færslu á Facebook síðu sinni þar sem hann ræðir nýja könnun sem sýni að meirihluti kjósenda VG styðji aðild að ESB. „Ekki bara að sækja um, eða fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort eigi að sækja um – heldur vill meirihluti kjósenda Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs ganga INN í ESB,“ segir Össur.

Sú staðreynd komi sér ekki á óvart. Í reglulegum skoðanakönnunum sem gerðar voru á síðasta áratug hafi fyrst komið í ljós að meirihluti hafi verið fyrir ESB umsókn í hópi kjósenda VG. Þar hafi raunar líka verið meirihluti við að taka upp evruna.

Forysta VG hafi hins vegar alltaf verið úr takti við almenna flokksmenn VG varðandi ESB.

„Katrín staðfesti það rækilega í formannaþætti á dögunum, þar sem hún sagðist ekki vilja ganga í ESB. Þar er hún semsagt á annarri línu en meirihluti kjósenda hennar skv. nýju könnuninni. Það voru sosum engar fréttir.

En mikil tíðindi – sem hinum lötu fjölmiðlum Íslands yfirsást – fólust í því sem Katrín Jakobsdóttir sagði þvínæst ofan í sannfæringarlítið svar sitt um ESB. Hún sagði skýrt að VG væri ekki mótfallið því að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarumsóknina.“

Með þessu hafi Katrín búið til einstakt tækifæri fyrir Samfylkinguna. „Mér er til efs að VG og Katrín leggi í nokkra ríkisstjórn með Samfylkinguna utan stjórnar. Það yrði raunar óðs manns æði fyrir VG. Einkum einsog staðan er að þróast þar sem Samfó er á blússandi uppleið - á hárréttum tíma.“

Pólitíska staðan í dag sé sú að Miðflokkurinn hafi „gert vinstri vængnum þann greiða að stýfa gersamlega hægri kantinn. Framsókn er í rúst, og Sigmundur heldur Sjálfstæðismönnum í 22-23 %. Kjósendur eiga svo einungis eftir að husla Bjarta framtíð og Viðreisn. Það verður því ekki hægt að mynda stjórn til hægri.“

Líklegast sé því að í fyrstu lotu stjórnarmyndunarviðræðna fái formaður VG umboð til að spreyta sig. „Ef Samfylkingin vill, og telur rétt fyrir land og þjóð, þá hefur hún í hendi sér að setja það sem skilyrði fyrir stjórnarþátttöku að ný ríkisstjórn efni til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarumsóknina.

Katrín hefur gefið upp boltann. Við Valsmenn myndum kalla þetta dauðafæri...,“ segir Össur.

mbl.is