Kosningabaráttan kostar VG 30 milljónir króna

Hluti kostnaðar VG er vegna nýlegs landsfundar.
Hluti kostnaðar VG er vegna nýlegs landsfundar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vinstri hreyfingin – grænt framboð (VG) ver 30 milljónum króna til kosningabaráttunnar að þessu sinni. Samfylkingin hefur 13 milljónir króna úr að spila í kosningabaráttunni.

Þetta kom fram í samtölum við Björgu Evu Erlendsdóttur, framkvæmdastjóra VG, og Hrannar Arnarsson, kosningastjóra Samfylkingarinnar. Fjárhæðin sem VG ver í baráttuna nú er nokkru lægri en fyrir þingkosningarnar í fyrra, en þá var hún 34,5 milljónir. Hjá Samfylkingunni er upphæðin langtum lægri en í fyrra þegar kosningabaráttan kostaði flokkinn um 40 milljónir króna, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

Björg Eva segir að útgjöld vegna landsfundar flokksins sem haldinn var dagana 6.-8. okt. séu inni í tölunni. Þá er innifalinn rúmlega 400 þúsund króna styrkur til hvers kjördæmanna sex, samtals um 2,5 milljónir króna. Flokksmenn í hverju kjördæmi afla síðan fjár sem skrifstofan í Reykjavík hefur ekki yfirsýn yfir að svo stöddu.

Um tveir þriðju útgjaldanna hjá VG fara í auglýsingar og birtingar hjá fjölmiðlum. Minnst er auglýst í sjónvarpi enda er það dýrast. „Samfélagsmiðlar eru mikið notaðir, facebook mest, en líka twitter, instagram og snapchat,“ segir Björg Eva. „Öll kjördæmin hafa ráðið sér kosningastjóra í nokkrar vikur, sem vinna með föstu starfsfólki í kosningastjórnarteymi, en önnur þjónusta sem við kaupum er af birtingahúsi og við kaupum vinnu við hönnun, samfélagsmiðla, heimasíðugerð og fjáröflun.“

Um 2,5 milljónir króna af kosningafé Samfylkingarinnar fara til félaganna í kjördæmunum sex, en þau munu að auki reyna að afla fjár á sjálfstæðan hátt. „Stærstur hluti útgjaldanna, um átta milljónir króna, fer í gerð kynningarefnis og birtingu auglýsinga, en aðeins einn starfsmaður hefur verið ráðinn til Samfylkingarinnar í fullt starf vegna kosningabaráttunnar á landsvísu,“ segir Hrannar.

„Ég veit það hljómar mjög lágt,“ bætir Hrannar við, „enda er það mjög lágt, en þannig er það. 13 milljónir í heild, plús möguleg viðbót í einstökum kjördæmum, sem ég fæ ekki upplýsingar um fyrr en ársreikningar verða gerðir fyrir Samfylkinguna í heild“.

Bloggað um fréttina