Miðflokkurinn hertekur Framsóknarhúsið

Það fer aðeins meira fyrir Miðflokknum en Framsóknarflokknum í sjálfu ...
Það fer aðeins meira fyrir Miðflokknum en Framsóknarflokknum í sjálfu Framsóknarhúsinu. Mynd/Guðmundur Karl

Miðflokkurinn hefur hreiðrað um sig á neðri hæðinni í Framsóknarhúsinu, að Eyravegi 15 á Selfossi, og opnar þar kosningaskrifstofu í kvöld með pompi og prakt. Það fer aðeins meira fyrir Miðflokknum í húsinu en flennistórar auglýsingar með andlitum frambjóðenda prýða gluggana og prjónandi hestinum, tákni flokksins, hefur verið komið fyrir á hlið hússins.

Svanur Guðmundsson, kosningastjóri Miðflokksins, segir þetta hafa verið eina húsnæðið sem var laust á Selfossi sem var sómasamlegt og uppfyllti kröfur flokksins, til að mynda varðandi gott aðgengi. Þess vegna hafi verið ákveðið að stökkva á það.

Að koma kosningaskrifstofunni fyrir þarna hafi því ekki verið í þeim tilgangi að ögra Framsóknarflokknum. „Nei, guð minn góður!“ segir Svanur aðspurður um þetta í samtali við mbl.is.

Þrátt fyrir að skrifstofan verði opnuð formlega í kvöld þá hafa frambjóðendur verið að taka þar á móti fólki. Svanur segist ekki vita til annars en að sambúðin við Framsóknarflokkinn hafi gengið vel, en líkt og flestir vita hafa margir fyrrverandi Framsóknarmenn gengið til liðs við Miðflokkinn. „Ég hef ekki heyrt af neinu veseni eða vandræðum með Framsóknarmenn. Ég veit ekki hvort það er einhver Framsóknarmaður eftir þarna á Selfossi. Þetta verður varla neitt vandamál, það er enginn þarna á eftir hæðinni.“

Svanur segir það annars bara hið besta mál að flokkarnir deili húsnæði undir kosningaskrifstofur. „Menn skerpa bara á pólitíkinni og gera þetta rétt og siðsamlega.“

Þrátt fyrir að Miðflokkurinn hafi hertekið neðri hæðina þá tala Framsóknarmenn ennþá um Framsóknarhúsið á Selfossi og hafa boðið áhugasömum í vöfflukaffi á efri hæðinni á morgun, föstudag.

mbl.is

Bloggað um fréttina