Fylgi Samfylkingarinnar dalar

Kjósandi setur atkvæði sitt í kjörkassa.
Kjósandi setur atkvæði sitt í kjörkassa. mbl.is/Brynjar Gauti

Sjálfstæðisflokkurinn nýtur mests fylgis kjósenda samkvæmt nýrri skoðanakönnun MMR. Flokkurinn mælist með 22,9% fylgi. Fast á hæla hans fylgir VG með 19,9% fylgi. Munurinn er innan vikmarka en báðir flokkar mælast með meira fylgi en í síðustu könnun MMR.

Könnunin var gerð dagana 20.-23. október.

Fylgi Samfylkingarinnar minnkar frá síðustu könnun og mælist 13,5%. Fylgið mældist 15,8% síðast. Fylgi Pírata dregst saman úr 11,9% í 9,3%. Miðflokkurinn fylgir nú fast á hæla Samfylkingarinnar og mælist með 12,3%. Fylgið mældist 11% í síðustu könnun.

Fylgi Framsóknarflokksins mælist 8,6%, sem er svipað og síðast og fylgi Viðreisnar lækkar úr 6,7% í 5,5%. Flokkur fólksins fer úr 5,3% í 4,7%. Fylgi Bjartrar framtíðar mælist nú 1,6% en var 1,8% síðast.

Stuðningur við ríkisstjórnina eykst aðeins. Hann mælist nú 25,7% en var 23,8% síðast.

979 einstaklingar, 18 ára og eldri, svöruðu könnuninni. Þeir voru valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR. „Álitsgjafar MMR eru valdir úr Þjóðskrá þannig að þeir endurspegli lýðfræðilega samsetningu þjóðarinnar á hverjum tíma,“ segir á heimasíðu MMR.

mbl.is