Hvort á að hækka eða lækka skattana?

Meðal þeirra mála sem mest hafa verið rætt í kosningabaráttunni til þessa vegna þingkosninganna í lok mánaðarins eru skattamálin. Hvað ætla flokkarnir að gera við skattana okkar? Hækka þá eða lækka og hvaða skatta þá og á hverja? Mbl.is hefur tekið saman hér fyrir neðan helstu áherslur flokkanna sem í framboði eru í skattamálum.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð: Eignajafnandi skattkerfi

Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur undirstöðu öflugs efnahagslífs vera blandað hagkerfi þar sem hinir efnamestu eru skattlagðir umfram hina tekjulægri. Skattkerfið eigi að vera skilvirkt, réttlátt, grænt, tekjujafnandi og þannig að það eyði aðstöðumun. Þó að tekjujöfnuður sé meiri á Íslandi en víðast hvar annars staðar er eignastaðan mjög ójöfn. Nýta beri skattkerfið til að jafna eignastöðu. Endurskoða eigi skattkerfið í samráði við aðila vinnumarkaðarins og hagsmunasamtök aldraðra, öryrkja og námsmanna. Skattar eigi að tryggja öflugt velferðarsamfélag og stuðla að jöfnuði. Taka eigi upp auðlegðarskatt, hátekjuskatt og þrepaskiptan fjármagnstekjuskatt auk skatts á gjaldeyrisviðskipti og skammtímahagnað. Þá þurfi að stórauka skattaeftirlit og skattrannsóknir.

Frétt mbl.is: Hvað vilja flokkarnir í utanríkismálum?

Sjálfstæðisflokkurinn: Tekjuskattur almennings niður í 35%

Sjálfstæðisflokkurinn vill halda sköttum í lágmarki og að fólk haldi sem mestu eftir af tekjum sínum. Skattkerfið eigi að vera einfalt, gagnsætt, sanngjarnt og skilvirkt til að auka réttaröryggi borgaranna og auðvelda skattyfirvöldum baráttuna gegn skattsvikum. Draga þurfi úr jarðaráhrifum skattkerfisins og bótakerfisins. Miða skuli skattlagningu og bætur við kjör einstaklinga en ekki sambúðarform eða fjölskyldustöðu. Tekjuskattur almennings verði lækkaður í 35%. Tryggingargjaldið verði einnig lækkað sem og fjármagnstekjuskattur og erfðafjárskattur. Sá síðarnefndi fari í 5% og verði að lokum afnuminn. Virðisaukaskattskerfið verði einfaldað og undanþágum fækkað. Þá verði lögbundið lágmarksútsvar sveitarfélagað afnumið og haldið áfram á þeirri braut að afnema tolla.

Samfylkingin: Bæði beinum og óbeinum sköttum beitt

Samfylkingin telur að öflun skatttekna og dreifing þeirra eigi að stuðla að jöfnuði og réttlæti án þess að vera um of íþyngjandi fyrir samkeppnisstöðu atvinnulífs. Hallalaus rekstur ríkissjóðs sé mikilvæg forsenda velferðar og jafnaðar. Leggja þurfi áherslu á að lækka skuldir ríkissjóðs og draga úr vaxtakostnaði sem sé einn stærsti útgjaldaliður ríkisins. Samfylkingin vill hækka auðlindagjöld og beita bæði beinum og óbeinum sköttum til að ná markmiðum um tekjudreifingu og jöfnuð. Sköttum og gjöldum verði beitt sem hagstjórnartækjum og hvötum, m.a. til að efla fjárfestingu og nýsköpun, bæta lýðheilsu og draga úr mengun, og í samræmi við markmið um eflingu græna hagkerfisins. Tekjuskattur sé þrepaskiptur og hærri skattar lagðir á tekjuhærri hópa.

Frétt mbl.is: Hvað á að gera við stjórnarskrána?

Píratar: Sanngjarnast að hækka persónuafsláttinn

Píratar telja að sanngjarnasta leiðin til að lækka skatta sé að hækka persónuafsláttinn. Píratar vilja hækka persónuafslátt strax á næsta ári um 7.000 krónur á mánuði og stefna ennfremur að því að hækkunin nemi 26.000 krónum á kjörtímabilinu þannig að hann fylgi almennri launaþróun. Persónuafslátturinn verði við lok kjörtímabilsins tæpar 78 þúsund krónur á mánuði.

Miðflokkurinn: Skattleggja inngreiðslu í lífeyrissjóð

Miðflokkurinn vilja meðal annars lækka tryggingargjaldið og skattleggja sparnað við inngreiðslu í lífeyrissjóð í stað þess að lífeyrisgreiðslur séu skattlagðar við útgreiðslu. Þar með minnki fjárfestingaþörf lífeyrissjóðanna og stjórnvöld geta greitt niður ríkisskuldir hraðar. Það feli ennfremur í sér ábata fyrir framtíðarkynslóðir.

Flokkur fólksins: 300 þúsund króna skattfrjáls framfærsla

Flokkur fólksins vill að persónuafsláttur verði hækkaður svo að tryggja megi 300 þúsund króna skattfrjálsa framfærslu á mánuði. Staðgreiðsla skatta verði greidd við inngreiðslu í sjóðina en ekki við útgreiðslu lífeyris. Tekjur ríkissjóðs aukist við það um tugi milljarða króna á ári. Flokkur fólksins vill að tekjur umfram 300 þúsund króna mánaðarlaun verði skattlagðar í þremur þrepum þar sem persónuafsláttur fari stiglækkandi eftir því sem launin verða hærri og falli að lokum niður við mánaðarlaun upp á eina og hálfa milljón króna.

Frétt mbl.is: Hyggjast leysa húsnæðisvandann

Framsóknarflokkurinn: Fella niður virðisauka á barnafatnað

Framsóknarflokkurinn vill halda áfram að einfalda skattkerfið og auka skilvirkni þess, landsmönnum og fyrirtækjum til hagsbóta. Flokkurinn vill hækka persónuafslátt og efla skatteftirlit. Framsóknarflokkurinn telur að lág tekjuskattsprósenta rekstraraðila bæti samkeppnishæfni, dragi að erlenda fjárfesta og auki innlendar fjárfestingar. Um leið dragi úr undanskotum og skatttekjur aukist. Brýnt sé að lækka tryggingargjald enn frekar og einfalda atvinnuumhverfi smáfyrirtækja. Flokkurinn vill fella niður virðisaukaskatt á fötum og skófatnaði fyrir börn. Og endurskoða erfðafjárskattinn. Þá telur flokkurinn sanngjarnt að þeir sem njóti hárra tekna greiði meira til samfélagsins en þeir sem ekki eru í sömu stöðu. Hátekjuskattur verði lagður á ofurlaun og ofurbónusa,

Viðreisn: Geti stofnað skattfrjálsa sparnaðarreikninga

Viðreisn telur að markviss efnahagsstjórn, einfaldara reglugerða- og skattaumhverfi, öflug samkeppni, stöðugur gjaldmiðill og virk þátttaka í alþjóðlegu viðskiptalífi séu lykilforsendur fyrir efnahagslegum framförum, aukinni framleiðni og varanlegri aukningu kaupmáttar. Flokkurinn vill endurskoða skattkerfið með það að markmiði að auka skilvirkni þess, fækka undanþágum og íþyngjandi reglum. Flokkurinn vill ennfremur að kaupendur fyrstu íbúðar verði heimilað að stofna skattfrjálsa sparnaðarreikninga í aðdraganda íbúðarkaupa.

Björt framtíð: Skattkerfið nýtt sem hagstjórnartæki

Björt framtíð vill nýta skattkerfið sem hagstjórnartæki og til hvatningar í fjárfestingum í nýsköpun og sprotafyrirtækjum, ekki síst umhverfisvænni tækniþróun og grænum iðnaði. Flokkurinn leggur áherslu á græna skatta í þeim tilgangi að hvetja til nýtingar á hreinum orkugjöfum og til náttúruverndar. Björt framtíð vill lækka tryggingagjald á fyrirtæki til að styðja við og hvetja til stofnunar lítilla fyrirtækja sem eru vaxtabroddur atvinnulífs og forsenda fyrir fjölbreyttari atvinnutækifærum. Flokkurinn telur sjálfsagt og eðlilegt að greitt sé auðlindagjald fyrir nýtingu allra sameiginlegra auðlinda okkar Íslendinga.

Alþýðufylkingin: Félagsvæðing fjármálakerfisins

Alþýðufylkingin vill félagsvæðingu fjármálakerfisins sem geti að mati flokksins sparað samfélaginu hundruð milljarða á ári. Ekki sé aðeins átt við hagnað bankanna þar heldur víki félagsvæðing til hliðar spákaupmennsku sem sogi verðmæti út úr raunhagkerfinu án þess að verðmæti skapist. Félagsvæðing fjármálakerfisins sé forsenda félagslegrar uppbyggingar innviða samfélagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert