Ekki arfgengt að vera sjálfstæðismaður

(T.v.) Eydís í fangi föður síns, Péturs H. Blöndal, árið …
(T.v.) Eydís í fangi föður síns, Péturs H. Blöndal, árið 1994. Vigdís Birna Ásadóttir Blöndal í fangi móður sinnar, Eydísar, nú.

„Á sama tíma fyrir 23 árum var ég 9 mánaða og pabbi að mælast inn á þing. Í dag er Vigdís 9 mánaða og ég að mælast inn á þing. Haldiði að það sé?“

Þetta skrifar Eydís Blöndal, dóttir Péturs H. Blöndal, á facebooksíðu sína í dag. Pétur heitinn Blöndal var lengi þingmaður Sjálfstæðisflokksins og Eydís dóttir hans er nú í framboði fyrir Vinstrihreyfinguna - grænt framboð í Reykjavíkurkjördæmi suður.

„Ég var alin upp við gagnrýna hugsun,“ segir Eydís spurð hvernig það hafi komið til að hún sé á vinstri væng stjórnmálanna, þveröfugt við föður sinn. „Það er nú ekki arfgengt að vera sjálfstæðismaður. Það halda það sumir og ég hef oft verið spurð þessarar spurningar, en það er vissulega ekki þannig,“ segir hún og hlær.

Eydís bendir ennfremur á að móðir hennar, Birna Guðmundsdóttir, sé ekki sjálfstæðiskona. „Hún ól mig líka upp. Fólk gleymir kannski framlagi kvenna og mæðra í þessu samhengi.“

Þessi frétt um Pétur Blöndal birtist í Helgarpóstinum 31. október …
Þessi frétt um Pétur Blöndal birtist í Helgarpóstinum 31. október árið 1994. Í myndatexta segir að sonur Péturs sé í fangi hans en þar var misskilingur á ferðinni; þetta er Eydís, þá 9 mánaða. Skjáskot/Helgarpósturinn

Foreldrar Eydísar skildu þegar hún var þriggja ára. Hún var eftir það hjá föður sínum aðra hverja helgi. „Ég man eftir því þegar við vorum að ganga út í bakarí á sunnudagsmorgnum, ég kannski sjö ára, að hann var að fara mjög djúpt í einhverjar pælingar sem ég hafði þá lítinn skilning á. En hann var miklu frekar að tala á hugmyndafræðilegum nótum en að ræða beinlínis við mig um Sjálfstæðisflokkinn.“

Skoðanir sínar segist hún því hafa öðlast út frá sinni eigin reynslu og á sínum forsendum. „Og þannig er heilbrigðast að gera það.“ Í því hafi foreldrar hennar stutt hana.

Hún segist hafa alist upp við mikla umræðu um pólitík og hafi lengi verið pólitísk, þó að hún hafi kannski ekki alltaf áttað sig á því. „Ég var að rifja það upp um daginn að þegar ég var í fjórða bekk í grunnskóla var ég mætt á fund með skólastjóra því það var ekki frí hjá okkur á öskudaginn eins og hafði alltaf verið.“

Peningar notaðir sem verkfæri

Allt frá því hún man eftir sér hefur hún verið frekar vinstrisinnuð. Spurð hvað heilli við þá stefnu svarar Eydís: „Það er aðallega viðhorfið til stjórnmálanna, að byggja skoðanir sínar á því í hvernig samfélagi við viljum búa í og leyfa peningunum að vera verkfæri okkar til að byggja upp gott samfélag frekar en að stjórna ferðinni.“

Hún nemur nú heimspeki og hagfræði og segist nýverið hafa lesið bók um húmaníska hagfræði sem fjallar um hvernig félagshyggjusjónarmið geti verið höfð að leiðarljósi.

Eydís segist ekki hafa ætlað sér að taka þátt í stjórnmálum fyrir alvöru en fyrir tveimur vikum skráði hún sig í VG og þá varð ekki aftur snúið. „Ég hef þar til nú aldrei verið virk í neinu stjórnmálastarfi innan flokka. Og fyrst ég var að þessu vildi ég gera það af fullum krafti.“

Og nú er svo komið að samkvæmt skoðanakönnunum er Eydís á leiðinni inn á þing. „Þetta leggst rosalega vel í mig. Ég þakka það traust sem kannanir sýna.“

Hún segist að sjálfsögðu tilbúin að setjast á þing og teldi það mikinn heiður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert