Lokað í Grímsey þegar allir eru búnir að kjósa

Kosið utankjörfundar hjá sýslumanni.
Kosið utankjörfundar hjá sýslumanni. mbl.is/Árni Sæberg

Formönnum yfirkjörstjórna kjördæmanna sex ber saman um það að alþingiskosningarnar á laugardag verði með hefðbundnu sniði og í litlu sem engu frábrugðnar alþingiskosningunum í fyrrahaust.

Talning hefst eftir að kjörstöðum hefur verið lokað kl. 22.00 á laugardagskvöld.

Erla S. Árnadóttir, formaður yfirkjörstjórnar Reykjavíkurkjördæmis norður, segir að undirbúningur hafi gengið með ágætum. Hún á von á því að fyrstu tölur úr kjördæminu geti birst á bilinu 22.45 til 23.00 á laugardagskvöld.

Sveinn Sveinsson, formaður yfirkjörstjórnar Reykjavíkurkjördæmis suður, segir að undirbúningur kosninganna gangi samkvæmt áætlun og verið sé að koma kjörstöðum kjördæmisins fyrir þessa dagana, en þeir eru sjö að tölu en átta í norðurkjördæminu.

Ástríður Grímsdóttir, formaður yfirkjörstjórnar Suðvesturkjördæmis, segir að allar kjördeildir í kjördæinu verði opnaðar kl. 9 á laugardagsmorgun og þeim lokað kl. 22 um kvöldið, nema Kjós, sem verði lokað kl. 19 en Kjós er fámennt sveitarfélag.

Ólafía Ingólfsdóttir, formaður yfirkjörstjórnar Suðurkjördæmis, segir að framkvæmd kosninganna nú verði með alveg sma sniði og í fyrra. „Það er svo stutt á milli, að menn eru bara í góðri þjálfun og þurfa enga upprifjun á framkvæmdinni. Við vorum með fund með kjörstjórnum í gærkvöldi og öll kjörgögn eru farin frá okkur út til kjörstjórna,“ sagði Ólafía.

Ólafur Rúnar Ólafsson, formaður yfirkjörstjórnar Norðausturkjördæmis segir að allur undirbúningur fyrir kosningarnar gangi samkvæmt áætlun og ekkert óvænt hafi komið upp á. Kjördeildir í kjördæminu séu 44 og liðlega 29 þúsund manns séu á kjörskrá. Flestar kjördeildir muni opna kl. 9 og loka kl. 22, en á smærri og fámennari stöðum verði ekki opið jafnlengi, kannski til kl. 18 og ekki opnað fyrr en kl. 10. „Sums staðar lýkur kjörfundi mjög snemma, eins og oft í Grímsey. Þegar allir á kjörskrá eru búnir að kjósa er bara lokað!“ sagði Ólafur Rúnar og hló við.

Ingi Tryggvason, formaður yfirkjörstjórnar Norðvesturkjördæmis, segir að kosningarnar nú verði með nákvæmlega sama sniði og í fyrra. Kjörtíminn verði styttri í minni kjördeildunum og t.d. á Ísafirði verði kjörfundi lokið kl. 21 í stað 22 áður, sem flýti því vonandi að atkvæði þaðan berist í Borgarnes, þar sem talið verður.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »