Kafað ofan í kannanir

mbl.is/Datasmoothie

Framsóknarflokkurinn virðist eiga mesta fylgið meðal þeirra sem eru óvissir hvort þeir mæti á kjörstað. Kjósendur Bjartrar framtíðar hafa fært sig yfir í Samfylkinguna og Vinstri græna og um 80% þeirra sem kusu Samfylkinguna, Sjálfstæðisflokkinn og Vinstri græn í fyrra ætla að kjósa flokkana að nýju í ár.

Þetta er meðal þess sem má lesa út úr gagnvirkum gögnum sem hugbúnaðarfyrirtækið Datasmoothie hefur sett fram og unnin eru upp úr niðurstöðum könnunar Félagsvísindastofnunar fyrir mbl.is og Morgunblaðið sem birtist í morgun.

Í fyrsta grafinu er hægt að rýna hvernig fylgi flokkanna frá síðustu kosningu hefur færst og hversu líklegir kjósendur viðkomandi flokka eru til að mæta á kjörstað.



Meðal áhugaverðra atriða sem sjá má úr þessu grafi er meðal annars að kjósendur Bjartrar framtíðar virðast hafa fært sig að miklu leyti yfir til Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, en miðað við niðurstöður kannana hefur Björt framtíð misst mikið fylgi frá síðustu kosningum. Þá hafa kjósendur Framsóknarflokksins frá því síðast skipst í næstum því tvær jafn stórar fylkingar. Þá sem ætla að kjósa flokkinn áfram og þá sem færa sig til Miðflokksins. Um 9% kjósenda Framsóknar ætlar aftur á móti að kjósa Sjálfstæðisflokkinn í dag.

Sá flokkur sem hefur hlutfallslega stöðugasta baklandið er Samfylkingin, en yfir 80% kjósenda flokksins síðast ætla að halda tryggð við hann. Það skýrist mögulega af því að flokkurinn missti mikið fylgi síðast en hefur sótt í sig veðrið í könnunum. Má því ætla að í síðustu kosningum hafi harðasti kjarni flokksins kosið hann og muni áfram gera það í ár til viðbótar við flökkufylgi sem kemur til baka.

Hjá Sjálfstæðisflokki og Vinstri grænum ætla tæplega 80% að kjósa flokkana aftur. Stærsti fylgisflóttinn frá Vinstri grænum fer yfir til Samfylkingar, eða um 12%. Hjá Sjálfstæðisflokknum fara hins vegar flestir til Miðflokksins, eða 8,5% og 5,3% til Framsóknarflokksins.

Um helmingur þeirra sem kusu Viðreisn í fyrra ætla að kjósa flokkinn aftur, en um 15% ætlar að flytja sig yfir til Samfylkingarinnar og önnur 15% til Sjálfstæðisflokksins.

Í næsta grafi er hægt að greina nánar hvernig mismunandi aldursflokkar myndu kjósa. Þannig er fylgi Pírata mest hjá eldra fólki á meðan Sjálfstæðisflokkurinn er stærstur hjá þeim sem eru yfir 60 ára. Ef aðeins konur myndu kjósa væru Vinstri græn stærsti flokkurinn í öllum aldursflokkum nema hjá 60 ára og eldri þar sem Sjálfstæðisflokkurinn væri stærri.



Það vekur sérstaka athygli hversu mikill munur er á fylgi Vinstri grænna eftir kyni, en munurinn er 6 upp í 16 prósentustig eftir aldursflokkum.

Sjálfstæðisflokkurinn er nokkuð jafn yfir alla aldursflokka hjá körlum með 25 til 29% fylgi, en sveiflan er mun meiri hjá konum þar sem fylgið er aðeins tæplega 13% í yngsta aldurshópnum og fer upp í 29% hjá þeim elsta.

Fylgi Samfylkingarinnar eykst í eldri aldurshópum, en um 20% þeirra sem eru 60 ára og eldri ætla að kjósa flokkinn. Hjá Viðreisn er þróunin á hinn veginn, en stuðningurinn er mestur í yngsta aldursflokknum, tæplega 13%, en fer niður í tæplega 5% í þeim elsta.

Í síðasta grafinu má sjá að kjósendur Bjartrar framtíðar eru líklegastir til að mæta á kjörstað, en kjósendur Framsóknar og Flokks fólksins ólíklegastir. Sjálfstæðisflokkurinn, Samfylkingin, Vinstri græn, Píratar, Miðflokkurinn og Viðreisn eru aftur á móti á svipuðum stað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert