Litlar breytingar á fylgi hafa mikil áhrif

Lítið þarf til að miklar breytingar verði á útkomu kosninganna.
Lítið þarf til að miklar breytingar verði á útkomu kosninganna. mbl.is/Golli

Vegna þess hve margir flokkar mælast með menn inni á þingi í skoðanakönnunum þarf aðeins örlitlar breytingar á fylgi flokkanna til að miklar breytingar verði á útkomunni. Eitt til tvö prósent til eða frá geta þannig haft úrslitaáhrif á það hvort við fáum vinstri eða hægri stjórn að loknum kosningum. Þetta segir Eva Heiða Önnudóttir stjórnmálafræðingur.

„Kannanirnar sýna auðvitað stóru línurnar, en vegna þess að við erum líklega með sjö flokka sem komast inn á þing, þá skipta smá breytingar á prósentustigum til eða frá svo miklu máli fyrir samsetninguna. Það getur breytt ákveðnum fjölda þingmanna fyrir hvern flokk og það getur líka breytt því  hvort það verður Sjálfstæðisflokkurinn sem leiðir næstu ríkisstjórn eða Vinstri græn. Hvort það verði vinstristjórn eða hægristjórn, með þá einhverja flokka á miðjunni sem þyrftu að vera með,“ segir Eva Heiða.

Samkvæmt könnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir Morgunblaðið dagana 22. til 25. október og birtist í blaðinu í dag, virðist henni vinstristjórnin þó vera sterkari. Þar mælist Sjálfstæðisflokkurinn með 24,5 prósent fylgi og 17 þingmenn, en Vinstri græn mælast með 20,2 prósent fylgi og 14 þingmenn. Þá mælist Samfylkingin með 15,3 prósent fylgi og 10 þingmenn. Eva Heiða segir það engu að síður ljóst að það stefni í mjög spennandi kosningar á morgun.

Stillir VG upp sem höfuðandstæðingi

Hvað stjórnarmyndun varðar segir Eva Heiða að hún geti vissulega orðið snúin, ef niðurstöðurnar verða í takt við síðustu skoðanakannanir. Þó megi alveg búast því að flokkarnir hafi eitthvað lært af þeirri stöðu sem kom upp eftir kosningarnar á síðasta ári þegar erfiðlega gekk að mynda ríkisstjórn.

Eva Heiða Önnudóttir stjórnmálafræðingur telur hugsanlegt að flokkarnir hafi lært …
Eva Heiða Önnudóttir stjórnmálafræðingur telur hugsanlegt að flokkarnir hafi lært eitthvað af síðustu ríkisstjórnarmyndun.

Ljóst er, miðað við könnun Félagsvísindastofnunar, að ekki er hægt að mynda tveggja flokka stjórn og ekki þriggja flokka stjórn nema með aðkomu Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna.

„Þriggja flokka stjórn er ólíkleg því þá þyrfti hún bæði að innihalda Sjálfstæðisflokk og Vinstri græn. Það verður því væntanlega fjögurra flokka stjórn. Af því Sjálfstæðisflokkurinn er stærstur til hægri og Vinstri græn til vinstri þá eru þeir flokkar orðnir kandídatar í að leiða næstu ríkisstjórn. Þessu hefur verið stillt upp sem annaðhvort miðju-hægristjórn eða miðju-vinstristjórn. Svo eru mögulega einhver önnur form þarna hjá miðjuflokkunum, en þá væri það fimm flokka stjórn, sem er mjög hæpið.“

Eva Heiða bendir líka á að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hafi sjálfur stillt þessu upp sem tveimur valmöguleikum.

„Maður hefur séð í málflutningi formanns Sjálfstæðisflokksins upp á síðkastið, sem ég man ekki eftir að hafa séð áður, að hann er farinn að tala um að kjósa Sjálfstæðisflokkinn sem kjölfestuna á hægri vængnum til að koma í veg fyrir að það verði vinstristjórn. Á meðan Katrín talar frekar á þeim nótum að það sé ólíklegt að þau fari í stjórn með Sjálfstæðisflokknum. Hún tekur ekki jafn sterkt til orða. Hann er því búinn að stilla þessu upp þannig að þetta sé val á milli hægri og vinstri. Hann er búinn að stilla Vinstri grænum sem höfuðandstæðingnum.“ Eva Heiða segir þó ekkert útilokað að flokkarnir geti samið um eitthvað sín á milli.

Gætu hafa lært eitthvað af reynslunni

Hún segir mjög líklegt að flokkarnir komi til með að standa frammi fyrir sömu áskorun varðandi myndun ríkisstjórnar, að loknum kosningum, og fyrir ári. „Mögulega hafa flokkarnir lært eitthvað af þeirri reynslu og gera sér betur grein fyrir því hvað getur verið framundan. Staðan er bara þessi að það þarf mjög líklega að fara í þriggja flokka stjórn, mjög líklega fjögurra, og allir flokkarnir verða að vinna með þær niðurstöður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert