Píratar vilja að Katrín fái umboð

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir á Bessastöðum.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir á Bessastöðum. mbl.is/​Hari

„Ég sagði við forsetann að mér þætti eðlilegt að Katrín fengi umboðið,“ sagði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, oddviti Pírata, eftir fund sinn við Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands. Fundurinn fór fram á Bessastöðum.

Þórhildur sagði að Píratar hefðu fullan hug á því að taka ábyrgð og mynda ríkisstjórn. „Okkur finnst viðbúið að þegar ríkisstjórn kolfellur, eins og hún gerði núna, þá er eðlilegast að byrja þar.“ Píratar, Vinstri grænir, Samfylkingin og Framsóknarflokkurinn funduðu í morgun í Alþingishúsinu.

Hún sagði að fundurinn í morgun hefði gengið ágætlega. Flokkarnir hefðu hug á því að vinna saman áfram, enda eigi þeir margt sameiginlegt. Hún sagði Vinstri græn hefðu verið leiðandi í stjórnarandstöðu og því væri eðlilegt að Katrín Jakobsdóttir fengi umboð til að mynda ríkisstjórn.

Þórhildur Sunna sagðist að niðurstöður kosninganna kölluðu á meiri samvinnu. Styrkja þyrfti þingið og flokkarnir þyrftu að vinna betur saman. Hún var spurð hvaða erindi Píratar ættu í meirihlutaviðræður þar sem viðræður undir þeirra forystu hafi í fyrra siglt í strand. Hún sagði að ekki væri um að ræða sömu flokkana. Pírötum hefði gengið vel að vinna með öðrum þingflokkum á Alþingi. „Við erum ábyrg, við erum stjórntæk og við erum tilbúin að taka þátt í ríkisstjórn.“

Hún sagðist ekki hafa útilokað samstarf við Sjálfstæðisflokkinn en segir þó að á slíku samstarfi sjái hún engan flöt. „Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki sýnt neina viðleitni til að fá okkur til samstarfs. Við sjáum ekki grundvöll fyrir því enda hefur flokkurinn ekki gefið okkur tilefni til að ætla að hann vilji vinna með okkur,“ sagði hún.

Þórhildur sagðist ekki útiloka samstarf við Miðflokkinn en sagði að það væri ekki hennar fyrsti kostur. Eðlilegast væri að stjórnarandstaðan ynni saman. Innviðirnir í samfélaginu hefðu fengið að grotna niður of lengi og að samstaða væri á milli þessara flokka um að byggja þá upp.

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, er situr nú inni hjá Guðna forseta.

Þórhildur Sunna segir að Píratar vilji koma að ríkisstjórnarmyndun.
Þórhildur Sunna segir að Píratar vilji koma að ríkisstjórnarmyndun. mbl.is/​Hari
mbl.is