Þarf að ákveða að fara áfram eða hætta

Logi Már Einarsson á Bessastöðum.
Logi Már Einarsson á Bessastöðum. mbl.is/​Hari

„Það verður eitthvað að miða áfram. Menn þurfa að ákveða að fara áfram eða hætta þreifingum, þannig að það hlýtur að vera að menn talist eitthvað við.“

Þetta sagði Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, þegar mbl.is náði tali af honum um hádegisbil. Hann hafði þá ekki átt nein samtöl við formenn annarra flokka, það sem var af degi, en sagðist gera ráð fyrir að rekast á einhverja í dag og eiga við þá spjall. Hann væri alla vega í vinnunni, líkt og fleiri formenn.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, sagði í samtali við Vísi.is nú fyrir skömmu að stjórnarandstöðuflokkarnir fjórir; VG, Samfylking, Píratar og Framsóknarflokkur, væru enn að ræða saman, en flokkarnir hafa átt í óformlegum viðræðum síðustu daga.

Þá hafa einnig verið viðraðir möguleikar á fimm og sex flokka stjórn til að styrkja meirihlutann því þessi fjögurra flokka stjórn hefði aðeins 32 þingmenn, eða eins manns meirihluta. Ekki virðist þó vera hljómgrunnur fyrir því hjá öllum, að minnsta kosti ekki fyrr en annað stjórnarmynstur hefur verið reynt.

Logi segir í raun ekki ljóst hve margir flokkar eru að tala saman, enda séu þreifingar í allar áttir. Hann getur þó staðfest að formenn sex flokka hafi ekki hist á sama tíma og rætt málin.

Aðspurður hvort hann telji að hægt verði að mynda vinstri-miðjustjórn líkt og þreifingar hafa verið í gangi um, segir Logi: „Ég er þokkalega bjartsýnn á það, já.“

mbl.is