Sögulegt símtal Sigmundar og Sigurðar

Líkur hafa aukist á samstarfi á milli Framsóknar og Miðflokksins.
Líkur hafa aukist á samstarfi á milli Framsóknar og Miðflokksins. mbl.is/​Hari

„Menn töluðu saman í gær já, sem er bara gott,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins í samtali við mbl.is. Hann staðfestir að Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, hafi rætt saman í síma í gær. Sagt var frá símtalinu í Fréttablaðinu í morgun.

„Það var verið að ræða hvort þessir flokkar gætu unnið saman ef það kæmi til þess í ríkisstjórn. Varaformaður Framsóknar hafði að sjálfsögðu líka rætt við okkur. Það er allavega engin fyrirstaða af okkar hálfu að vinna með Framsókn,“ segir Gunnar Bragi um samtal formannanna.

Hafa komist af án þess að tala saman

Það er óhætt að segja að andað hafi köldu á milli þeirra tveggja upp á síðkastið og þegar Sigmundur sagði sig úr Framsóknarflokknum í haust sakaði hann Sigurð Inga meðal annars um að hafa svikið loforð um að hann færi ekki gegn honum í formannskosningu í flokknum. Í kjölfar úrsagnar úr flokknum stofnaði Sigmundur Miðflokkinn og fjölmargir sem gegnt höfðu trúnaðarstörfum fyrir Framsókn fylgdu honum í nýjan flokk, þar á meðal Gunnar Bragi.

Hann viðurkennir að formennirnir hafi alveg komist af án þess að ræða mikið saman upp á síðkastið. „Það hefur ekki verið mikið samband á milli þeirra,“ segir hann. Óhætt er því að segja að um sögulegt símtal hafi verið að ræða.

Andað hefur köldu á milli Sigurðar og Sigmundar. Sá síðarnefndi …
Andað hefur köldu á milli Sigurðar og Sigmundar. Sá síðarnefndi hefur sakað þann fyrrnefnda um svik mbl.is/​Hari

Aðspurður hvort sögulegar sættir hafi átt sér stað á milli Sigmundar og Sigurðar í gær vill Gunnar Bragi ekkert um það segja. „Það veit ég ekki. Menn eru allavega að ræða saman um samstarf og það kemur til greina að vinna saman í ríkisstjórn, hvort sem það er miðju vinstri eða hægri stjórn.

Spurning hvort Framsókn treysti sér í viðræður

Í dag mun það skýrast hvort óformlegar viðræður fráfarandi stjórnarandstöðuflokkanna fjögurra; Vinstri grænna, Samfylkingarinnar, Pírata og Framsóknarflokksins, færist á formlegt stig. Slík stjórn hefði þó nauman meirihluta, eða 32 þingmenn. Fulltrúar þessara flokka sátu á fundum í allan gærdag og reyndu að átta sig á því hvort málefnalegur grundvöllur væri fyrir stjórnarsamtarfi þeirra. Komið hefur fram að Sigurði Inga þyki þessi meirihluti heldur naumur og hann mun hafa viðrað þær hugmyndir að taka fleiri flokka inn í samstarfið.

Það kom fram í Morgunblaðinu í dag að seint í gærkvöldi hefði þingflokkur Framsóknar ekki kveðið upp úr um það hvort hann treysti sér í formlegar stjórnarmyndunarviðræður þessara flokka.

Líkur á samstarfi hafi aukist

Gunnar Bragi segir ýmsar hugmyndir hafa verið viðraðar við Miðflokkinn og að flokkurinn sé tilbúinn að skoða alla möguleika út frá málefnum. „Nú eru þessir fjórir flokkar að tala saman og það skýrist í dag hvort það verður framhald á því hjá þeim. Ef menn vilja bæta okkur við það, skoðum við það að sjálfsögðu. Við erum opin fyrir öllu. Við myndum þá vilja sjá hvaða málefni menn ætla að keyra á í slíkri stjórn og ef það er eitthvað sem hugnast okkur þá útilokum við ekki neitt. Við erum öll í þessu til að hafa áhrif og okkur ber skylda til að taka þátt.“ Hann telur að það séu engin stórmál sem ekki hægt sé að ná saman um. „Við þurfum að leiðrétta ákveðin kjör hjá fólki sem hefur orðið útundan í samfélaginu.“

Gunnar Bragi segir formenninna hafa rætt um hugsanlegt samstarf í …
Gunnar Bragi segir formenninna hafa rætt um hugsanlegt samstarf í ríkisstjórn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það hefur verið látið í veðri vaka að heiftarlegur persónulegur ágreiningur gæti staðið í vegi fyrir ríkisstjórn með bæði Framsókn og Miðflokkinn innanborðs, en nú þegar formennirnir eru farnir að tala saman ætti málefnalegur grundvöllur fyrir samstarfi flokkanna að vera góður.

„Auðvitað eru áherslurnar aðeins öðruvísi og það er meiningarmunur á milli þessara flokka um hvernig eigi að hrinda málum í framkvæmd. Það er samt eitthvað sem ekki er óbrúanlegt.“ Gunnar Bragi segir að minnsta kosti meiri líkur á samstarfi á milli flokkanna eftir samtal formannanna í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert