Verður þetta minnihlutastjórn?

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hugsanlegt er að sú ríkisstjórn sem til stendur að hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður um verði í raun minnihlutastjórn ef marka má þau orð sem Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, lét falla í umræðum á samfélagsvefnum Facebook í dag.

Pawel Bartoszek, fyrrverandi þingmaður Viðreisnar, vakti athygli á því í dag að Björn Leví hefði ítrekað vakið máls á því í umræðum á Alþingi í tíð síðustu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, að sú stjórn hefði ekki meirihluta atkvæða á bak við sig þrátt fyrir að hafa tæpan meirihluta þingmanna á Alþingi eða 32.

Bendir Pawel á að komi til stjórnarsamstarfs Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, Framsóknarflokksins, Samfylkingarinnar og Pírata verði sú ríkisstjórn einnig með færri atkvæði á bak við sig en stjórnarandstaðan eða 95.874 atkvæði gegn 97.502. Sjálfur segist Pawel ekki gera athugasemd við þetta enda afleiðing kosningakerfisins.

„Ég hef áhyggjur af því siðferði“

Pawel rifjar hins vegar upp fyrirspurn sína til Björns Levís í umræðum á Alþingi í mars hvort hann væri einlægur í þessari gagnrýni sinni og hvort hann gæti staðið að ríkisstjórn með þingmeirihluta sem væri byggður á minnihluta atkvæða. Björn Leví svaraði

„Ég skil ekki að fólk hafi siðferðilega getað kvittað undir það að fara í meirihlutasamstarf ekki með lýðræðislegan meiri hluta á bak við þá ákvörðun. Ég skil það ekki. Ég hef áhyggjur af því siðferði, satt best að segja. [...] Ég vil ekki vera í stjórnarmeirihluta þar sem ekki er stuðningur meiri hluta kjósenda.“

Björn Leví bregst við vangaveltum Pawels á Facebook-síðu þess síðarnefnda í dag og segist hafa meint þessi orð sín. Tekur hann undir það með Pawel að fyrirkomulagið sé afleiðing kosningakerfisins sem hann hafi bent á að þyrfti að laga.

Spyr Pawel þá hvort ekki þurfi að láta forsetann vita af því að ekki sé meirihluti fyrir mögulegri ríkisstjórn flokkanna fjögurra og vísar til þess að flokkarnir fjórir hafa 32 þingmenn á bak við sig eða eins manns meirihluta.

„Ég væri þá þingmaður bara sem ákveður að styðja stjórnarsáttmála,“ segir Björn Leví og bætir síðan við að málið snúi öðruvísi við honum ef fyrirhuguð stjórn starfi sem minnihlutastjórn: 

Ef stjórnin starfar samkvæmt því að hûn sé minnihlutastjórn hins vegar, þá er það annað mál.“

Pawel Bartoszek, fyrrverandi þingmaður Viðreisnar.
Pawel Bartoszek, fyrrverandi þingmaður Viðreisnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is