Skilaði umboðinu til forsetans

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, á Bessastöðum.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, á Bessastöðum. mbl.is/Árni Sæberg

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, greindi fjölmiðlum frá því eftir fund með Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, á Bessastöðum í dag, þar sem hún skilaði stjórnarmyndunarumboðinu, að hún teldi rétt að veita stjórnmálaflokkunum svigrúm til þess að kanna möguleikana í stöðunni. 

„Miðað við þau samtöl sem ég hef átt í dag við fulltrúa annarra flokka þá hefði ég talið eðlilegt að gefa okkur aftur ákveðið svigrúm til að eiga frekari samtöl áður en ákveðið verður að veita umboð að nýju. Það er mín skoðun og það verður forsetinn að fara yfir,“ sagði Katrín þegar hún ávarpaði fjölmiðla eftir fundinn.  

Katrín sagðist hafa greint forsetanum frá því að viðræðum fjögurra flokka, VG, Framsóknarflokksins, Samfylkingarinnar og Pírata, hefði ekki skilað árangri. Hún hefði ennfremur greint forsetanum frá því að frá því að upp úr þessum viðræðum slitnaði og eftir samtöl við formenn annarra flokka hefði hún ekki starfshæfan meirihluta á bak við sig. Aðspurð sagðist hún hafa rætt við alla flokka nema Miðflokkinn og Flokk fólksins.

Hefur fulla trú á að starfhæf ríkisstjórn verði mynduð

Katrín var ítrekað spurð að því hvort hún gæti hugsað sér samstarf við Sjálfstæðisflokkinn og svaraði því jafnoft að hún hefði enga möguleika útilokað. Það væri verkefni stjórnmálaflokkanna að koma saman starfhæfri ríkisstjórn og hún hefði fulla trú á að það tækist að lokum. Það væru ýmsir aðrir möguleikar í stöðunni.

„Mér finnst þessar viðræður sem hafa staðið yfir núna hafa verið góðar og mér finnst þær hafa verið heiðarlegar þó að þær hafi steypt á þessu skeri og ég ætla að leyfa mér að vera vongóð um það að okkur lánist eftir frekari samtöl að mynda hér starfhæfa og góða ríkisstjórn fyrir fólkið í landinu. Það er bara verkefni áfram,“ sagði Katrín. 

Hún var einnig spurð að því hvort hún teldi Framsóknarflokkinn hafa verið af heilum hug í viðræðunum og sagðist hún telja það. Flokkurinn hefði frá byrjun lýst áhyggjum af tæpum meirihluta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert