Sjálfstæðisflokkur sér tvo vænlega kosti

Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur virðast báðir horfa hýru auga til Vinstri …
Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur virðast báðir horfa hýru auga til Vinstri grænna. mbl.is/Eggert

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, hefur ekki heyrt í neinum formanni hinna flokkanna á Alþingi í dag, en hún er eini formaðurinn sem mbl.is hefur náð tali af. „Nei, nei, við erum bara spök og höfum það huggulegt,“ segir Inga í samtali við mbl.is. Hún segist sjálf ekki ætla að hafa samband við neinn að fyrra bragði, enda gangi flokkurinn ekki með draum um ríkisstjórn í maganum. „Við erum hógværðin uppmáluð og gerum ekki neinar kröfur.“

Formenn annarra flokka hafa ekki látið ná í sig í síma og því greinilegt að ekki er vilji fyrir því að upplýsa um gang mála í þreifingum um stjórnarmyndunarviðræður.

Ljóst er að formennirnir eru að tala saman sín á milli til að kanna grundvöll fyrir hugsanlegu ríkisstjórnarsamstarfi, eftir að stjórnarmyndunarviðræðum Vinstri-grænna, Framsóknarflokks, Samfylkingar og Pírata var slitið í gær. Ástæðan var sú að Framsókn taldi 32 þingmanna meirihluta, sem flokkarnir hefðu haft á bak við sig, of nauman til að takast á við stór verkefni sem fram undan eru.

Sjálfstæðisflokki þykir stjórn með VG og Framsókn fýsilegust

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri-grænna, skilaði í kjölfarið stjórnarmyndunarumboðinu til forseta Íslands. Hann ákvað að gefa formönnum flokkanna svigrúm fram á miðvikudag til að ræða saman sín á milli, áður en hann tæki ákvörðun um næstu skref. Margir virðast hallast að því að Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, verði næst veitt umboðið og hann fá að spreyta sig á myndun ríkisstjórnar.

Staðan er hins vegar þannig að enginn augljós kostur varðandi ríkisstjórnarsamstarf liggur fyrir og því eru langflestir formennirnir að tala saman sín á milli og kanna hvernig landið liggur. Samkvæmt upplýsingum innan úr þingflokkunum eru menn að hittast yfir kaffibolla og ræða saman í síma. Samtöl á milli manna hafa enn ekki náð það langt að formenn fleiri en tveggja flokka hafi hist og rætt málin.

Það ríkisstjórnarmynstur sem mest hefur verið rætt um að gæti verið reynt næst er samstarf Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri-grænna. Samkvæmt heimildum mbl.is þykir sá kostur fýsilegastur innan tveggja fyrrnefndu flokkanna, þrátt fyrir að ákveðin vandamál myndu fylgja slíku samstarfi. Ljóst er hins vegar að sætta þarf ólík sjónarmið og gera margvíslegar málamiðlanir, sama hvaða stjórnarmynstur verður raunin.

Ekki mikill áhugi á samstarfi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar

Fram kom í Morgunblaðinu í dag, samkvæmt heimildum blaðsins, að Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, hefði hvatt Katrínu til þess að hafa samband við formann Sjálfstæðisflokksins í kjölfar viðræðuslitanna í gær. Svo virðist því sem óskastjórn Framsóknaflokksins sé samstarf með Vinstri-grænum og Sjálfstæðisflokki. Samkvæmt heimildum mbl.is er það líka sú stjórn sem Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að reyna að mynda. Sú stjórn hefði 35 þingmanna meirihluta á bak við sig.

Þá hafa einnig verið viðraðar hugmyndir um stjórn Sjálfstæðisflokks, Vinstri-grænna og Samfylkingarinnar, með 34 þingmenn á bak við sig. Samkvæmt heimildum mbl.is er hins vegar ekki mikill áhugi á því, hvorki innan Samfylkingar né Sjálfstæðisflokks, að fara í eina sæng.

Fjögurra flokka miðju-hægristjórn næsti kostur

Annað ríkisstjórnarmynstur sem hefur verið rætt um er samstarf Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks, Miðflokks og Flokks fólksins, sem einnig hefði 35 þingmenn á bak við sig. Samkvæmt heimildum mbl.is þykir sá kostur einnig fýsilegur innan Sjálfstæðisflokksins og væri líklega næsti valkostur gengi ekki að fá Vinstri-græna og Framsóknarflokkinn saman að borðinu.

Sigurður Ingi sagði hins vegar í samtali við mbl.is í gær að sú ríkisstjórn myndi ekki svara kalli um pólitískan stöðugleika og breiðari skírskotun, sem hann hefði lagt áherslu á.

Þá er hugsanlegt að persónulegur ágreiningur á milli Sigmundar Davíðs og Sigurðar Inga gæti staðið slíkri stjórn fyrir þrifum, þrátt fyrir að samskipti þeirra hafi liðkast eftir sögulegt símtal þeirra á milli á miðvikudaginn í síðustu viku.

Það að ekki skuli hafa verið haft samband við formann Flokks fólksins í dag bendir einnig til þess að ekki sé um fyrsta valkost að ræða.

Inga segir þó of snemmt að segja til um það hvort áhugi sé fyrir því að fá flokkinn inn í ríkisstjórnarsamstarf, enda hafi engum formanni verið veitt stjórnarmyndunarumboð ennþá.

Aðspurð hvort flokkurinn sé tilbúinn að gefa einhver mál sín upp á bátinn komi til þess að hann verði kallaður að borðinu í stjórnarmyndunarviðræðum segir Inga það verða óumflýjanlegt, enda ljóst að sætta þurfi mörg ólík sjónarmið. Það eru þó ákveðin mál sem flokkurinn er ekki tilbúinn að gefa eftir. „Það er til dæmis 300 þúsund króna framfærslan og frítekjumarkið. Svo viljum við húsnæðisverð út úr vísitölu neysluverðs. Við teljum það algjöra forsendu og gjörbyltingu fyrir skuldir heimilanna í landinu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert