„Núna er bara verið að þreifa“

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. mbl.is/Árni Sæberg

„Staðan er einfaldlega sú að það eru allir að tala við alla og ég var bara að fara yfir það með þingflokknum mínum í dag. Eftir að það slitnaði upp úr hjá þessum fjórum flokkum hefur í raun og veru verið bara opin lína hjá öllum ,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, í samtali við mbl.is.

Þingflokkur VG fundaði í dag á milli klukkan 14-15 þar sem Katrín greindi frá stöðu mála. „Það hefur í rauninni lítið gerst í dag nema bara mikið af símtölum og svo náttúrulega þessir þingflokksfundir,“ segir hún en fyrir utan VG voru þingflokksfundir hjá Sjálfstæðisflokknum og Samfylkingunni þar sem forystumennirnir fóru yfir stöðuna.

„Þessi fjögurra flokka stjórn var auðvitað okkar fyrsti kostur. Þegar hún er út úr myndinni þá eru bara nokkrir augljósir kostir sem fjölmiðlar eru náttúrulega búnir að kortleggja og við líka. Núna er bara verið að þreifa. Hvað nær maður langt með sín mál og í hvaða samhengi.“

Það sé vitanlega alltaf auðveldara að mynda stjórn með þeim sem maður sé meira sammála en minna. Þannig standi Samfylkingin málefnalega nær VG en til dæmis Framsóknarflokkurinn en á hinn bóginn sé Framsóknarflokkurinn ekki sami flokkurinn. 

„Við verðum auðvitað að leggja eitthvað á okkur ef við ætlum að fara í ríkisstjórn og ég hef bara verið að keyra þá línu hart að ég vilji halda öllu opnu svo fremi að það náist einhver viðunandi árangur. Eitthvað sem við getum sagt að við séum stolt af að gera með þeim hætti.“

Katrín segist þannig ekki vera til í útilokunarleikinn sem hafi verið í gangi eftir kosningarnar fyrir ári. Það sé einfaldlega alls ekki hjálplegt í stöðunni.

mbl.is