Verið að bíða eftir forsetanum

Sigmundur Davíð Gunnlausson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlausson, formaður Miðflokksins. mbl.is/​Hari

Það hafa verið heilmikil samtöl eins og alltaf eru þegar stjórnarmyndunarviðræður hafa verið í gangi en ég hef ekki verið í miklum samtölum við formenn flokka í dag,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, í samtali við mbl.is spurður um þróun mála í dag varðandi mögulegar stjórnarmyndunarviðræður.

Spurður um fund sem Sigmundur átti með Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, í gær segir hann það hafa verið ljómandi fínan fund. Hann hafi þó rætt við forystumenn fleiri flokka að undanförnu þó ekki hafi verið um það að ræða í dag. Engum formlegum viðræðum þó.

„Ég ímynda mér að slíkt fari ekki af stað fyrr en einhver fær umboðið þannig að þetta sé í ákveðinni biðstöðu þangað til. Ekki það að ekki sé hægt að mynda ríkisstjórn þó enginn sé með umboðið en ég ímynda mér í ljósi aðstæða að það séu allir að bíða eftir þeirri startbyssu,“ segir Sigmundur spurður um framhaldið.

Gefur lítið fyrir tal um breiða skírskotun

Sigmundur gefur hins vegar lítið fyrir tal um að næsta ríkisstjórn þurfi endilega að hafa það sem kallað hafi verið breið skírskotun. „Ég sagði það fyrir kosningar og eftir kosningar, og er mikil alvara með það, að stjórnarmyndun við þessar aðstæður eigi að byggjast einfaldlega á því hverjir nái saman um málefnin. Ég skil ekki alveg þegar svona frösum er hent hingað og þangað að myndi þurfi ríkisstjórn með breiða skírskotun.“

Það sé einmitt þessi hugsun sem sé vandi stjórnmálanna. „Kjósendur kjósa ólíka stefnu eftir því hvað þeir telja rétt og samkvæmt okkar hugmyndum um lýðræði fer fram þessi samkeppni hugmyndanna. Síðan ætla stjórnmálamenn bara að koma saman eftir kosningar og búa til stjórn sem er kölluð breið skírskotun og vona þá að kjósendur verði til friðs og þeir geti í friði skipt með sér stólunum.“

Sigmundur tekur Framsóknarflokkinn sem dæmi þar sem flokkurinn hafi nálgast málin með þessum hætti. „Ef Framsókn myndi nálgast það þannig að stjórnarsamstarf við VG og Sjálfstæðisflokkinn, sem mikið er talað um, væri breiðari skírskotun en stjórn Sjálfstæðisflokksins, Framsóknar, Miðflokksins og Flokks fólksins, þá er Framsókn með því að segja að þeir telji stefnu Miðflokksins og Flokks fólksins of líka stefnu Framsóknar.“

Þörf á að þynna út stefnu Framsóknar?

Fyrir vikið þyrfti að þynna út hliðstæðar stefnuáherslur og hjá Framsóknarflokknum því annars væri of mikil áhersla á það í stjórnarsamstarfinu. Það væru aftur skrítin skilaboð til kjósenda flokksins. Hann minnir á það í því sambandi að upp úr viðræðum um vinstristjórn á dögunum hafi ekki slitnað vegna málefnalegs ágreinings eða vegna þess að hún hefði ekki nógu breiða skírskotun heldur að það hafi vantað fleiri þingmenn.

„Þannig að í þessu öllu legg ég bara áherslu á að þetta verði að snúast um það í hvernig samstarfi menn treysti sér til þess að standa við þau fyrirheit sem þeir gáfu í kosningunum og það er það sem ég hef lagt til grundvallar í öllum þeir samtölum sem ég hef átt.“

Spurður út í símatal sem hann hafi átt við Sigurð Inga Jóhannsson, formann Framsóknarflokksins, í kjölfar kosninganna sem kallað var sögulegt segir Sigmundur: „Við vorum að ræða möguleikana á samstarfi og ég svaraði þar eins og ég svara alls staðar að ég væri alltaf til í viðræður á grundvelli málefnanna.“

Varðar ekki um innanbúðarmál Framsóknar

Spurður áfram hvort hann geti unnið með Sigurði Inga og Framsóknarflokknum segir Sigmundur: „Ég held að það sé nú gert of mikið úr því að velta fyrir sér hvort ég geti unnið með persónunni Sigurði Inga. Maður þarf að vinna með alls konar fólki og getur ekki alveg valið það. Ég hef alltaf lagt áherslu á það að þetta snúist ekki um Sigurð Inga einan og sér heldur ákveðinn hóp í Framsóknarflokknum sem hefur verið í andstöðu við mig.“

Það væri þannig áhugaverðari spurning hvort hann gæti unnið með þeim hópi. „Svarið við því er bara það að maður myndi bara nálgast þann hóp eins og aðra pólitíska andstæðinga. En ef áherslan er á málefnin þá væntanlega þarf maður ekki að hafa áhyggjur af innanbúðarstöðunni í Framsóknarflokknum.“

Spurður um framhaldið varðandi stjórnarmyndun segir Sigmundur: „Það er upplifun mín að það séu allir í raun að bíða eftir því að einhver fái umboðið þó það sé alveg hægt að tala saman án þess. En í ljósi þess að það er búið að veita umboðið einu sinni, sem varð grunnur að einhverjum viðræðum, þá séu allir að bíða eftir því að næstu viðræður grundvallist líka á veitingu umboðs.“

mbl.is