Myndi skapa pólitískan stöðugleika

Björn Valur Gíslason.
Björn Valur Gíslason. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ríkisstjórn þessara þriggja flokka hefði sex þingmenn umfram stjórnarandstöðuna og því með traustan meirihluta á þingi. Þinglið hennar yrði ágæt blanda af pólitískum reynsluboltum og nýjum þingmönnum sem gætu auðveldlega staðið af sér atlögur lýðskrumara í stjórnarandstöðu.“

Þetta segir Björn Valur Gíslason, fyrrverandi varaformaður Vinstrughreyfingarinnar - græns framboðs, á vefsíðu sinni í dag um þann möguleika að VG myndi ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum sem talsvert hefur verið rætt um. Björn Valur tók einnig jákvætt í þennan möguleika síðasta vetur eftir að nokkrar misheppnaðar tilraunir höfðu verið gerðar til þess að mynda ríkisstjórn í kjölfar kosninganna fyrir ári.

„Ríkisstjórn þessara þriggja flokka myndi ekki ráðast í miklar eða umdeildar kerfisbreytingar hvort sem um væri að ræða í stjórnarskrármálinu, í sjávarútvegi eða landbúnaðarmálum svo dæmi séu tekin. Hún myndi þess í stað einbeita sér að minna umdeildum málum og að treysta frekar heilbrigðis- og velferðarkerfið,“ segir hann ennfremur í dag.

Ríkisstjórn flokkanna þriggja „hefði tækifæri til að gera góða hluta samhliða því að skapa pólitískan stöðugleika í landinu,“ segir Björn Valur og bætir við að forsenda fyrir farsælu samstarfi þeirra sé sú að það yrði undir forystu Katrínar Jakobsdóttur.

mbl.is