Rangt að Píratar hafi gefið eftir öll mál

Þórhildur Sunna segir alrangt að Píratar hafi gefið eftir sín ...
Þórhildur Sunna segir alrangt að Píratar hafi gefið eftir sín helstu mál. mbl.is/​Hari

„Að gefnu tilefni er vert að taka fram að Píratar voru aldeilis ekki búnir að gefa eftir sín helstu mál í VSPB-viðræðunum,“ skrifaði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, fulltrúi Pírata, á Facebook-síðu sína gær. Á hún þar við stjórnarmyndunarviðræður Vinstri grænna, Samfylkingar, Framsóknarflokks og Pírata, sem slitið var á mánudag. Það var Framsóknarflokkurinn sem ákvað að slíta viðræðunum vegna þess að flokkurinn taldi meirihlutann, 32 þingmenn, of nauman til að takast á við stór verkefni sem fram undan eru.

Viðmælandi Morgunblaðsins, ónafngreindur þingmaður Framsóknarflokksins, hélt því fram í samtali við blaðið á þriðjudag að bæði Samfylking og Píratar hafi verið tilbúnir að gefa öll sín stefnumál upp á bátinn bara ef þeir fengju sæti í ríkisstjórn. Þingmaðurinn sagði slíka afstöðu ekki vita á gott og að mati hans hefði stjórnarmyndun á svo veikum grunni falið í sér að grasrótin í flokkunum tveimur yrði á endanum „snarvitlaus“ og að stjórnin myndi springa. Jafnvel eftir skamma setu.

„Sögur af uppgjöf Pírata eru uppspuni frá rótum“

Þórhildur segir í færslu sinni að það sé alrangt að Píratar hafi verið búnir að gefa eftir öll sín helstu mál í viðræðunum. „Við vorum vissulega lausnamiðuð og samvinnuþýð í þessum samningaviðræðum enda byggja gildi Pírata á vönduðum vinnubrögðum og gagnkvæmri virðingu en því skal haldið rækilega til haga að þessar viðræður strönduðu ekki á málefnum. Við höfðum náð góðri sátt um okkar helstu mál og er stjórnarskráin þar með talin líkt og kom fram á sameiginlegum blaðamannafundi formannanna fjögurra (og formannsígilda) þegar viðræðum var slitið. Sögur af uppgjöf Pírata eru uppspuni frá rótum.“

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði við upphaf viðræðna áðurnefndra flokka að Samfylkingin myndi ekki setja það sem skilyrði í stjórnarmyndunarviðræðum að haldin yrði þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhaldandi viðræður við Evrópusambandið. Hann sagði að meginverkefni næstu ríkisstjórnar væru að skipta gæðum jafnar og byggja upp réttlát samfélag þar sem allir þegnar fái tækifæri.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, hefur einnig lýst því yfir að flokkurinn setji þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald viðræðna ekki sem skilyrði fyrir mögulegu ríkisstjórnarsamstarfi. Hún sagði í viðtali við RÚV að ábyrgðin væri að koma saman stjórn og á þessu stigi teldi hún ekki rétt að flokkar settu fram ákveðin skilyrði.

Það liggur fyrir að næsta ríkisstjórn verður samsett af minnsta kosti þremur flokkum með ólíkar stefnur og því ljóst að sætta þarf ólík sjónarmið og gera málamiðlanir, líklega í meira mæli en áður.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, sagði í viðtali í Harmageddon á X-inu í gær að flokkarnir væru að átta sig á því að ekki væri hægt að ná málefnalegri heildstæðri stjórn um hægri eða vinstri. „Ég held að all­ir átti sig á því að það er eng­inn að fara að fá sín­ar ýtr­ustu kröf­ur fram í neinu því sam­starfi sem er uppi á borðum núna,“ sagði Katrín jafnframt.

 

 

mbl.is