Þing gæti komið saman fyrir mánaðamót

Þingflokksformennirnir ásamt Steingrími J. Sigfússyni á fundinum í morgun.
Þingflokksformennirnir ásamt Steingrími J. Sigfússyni á fundinum í morgun. mbl.is/Hari

Hugsanlegt er að Alþingi þurfi að koma saman fyrir næstu mánaðamót til að leysa úr ýmsum málum ef ný ríkisstjórn hefur ekki verið mynduð. Þetta sagði Steingrímur J. Sigfússon, starfandi forseti Alþingis, að loknum fundi með formönnum þingflokkanna átta sem eiga kjörna fulltrúa á þingi.

„Við ræddum tímalínuna sem framundan er. Menn skiptust á skoðunum um hvenær mönnum sýndist í síðasta lagi að þing þyrfti að koma saman því það liggja fyrir tiltekin verkefni og jafnvel fleiri en í fyrra,“ sagði Steingrímur í samtali við mbl.is.

„Mönnum mun sjálfsagt ekki veita af öllum desember og jafnvel hugsanlegt að þingið þurfi að koma saman strax fyrir mánaðamót.“

Steingrímur tók fram að þessi mál eigi eftir að ræða við forystumenn flokkanna og hvort plan B sé nauðsynlegt, þ.e. hvort þingið kemur saman áður en ljóst er hvaða ríkisstjórn tekur við.

Slíkt var gert á síðasta ári en þá kom þingið saman 6. desember. Þá var kosið í nauðsynlegar nefndir og gerðar þær ráðstafanir sem þurfti til að það gæti lokið sínum verkefnum fyrir áramót. „Það er enn sem komið mögulegt að það verði staðan en kannski brestur stífla og ríkisstjórn verður til. Þá fer málið að sjálfsögðu í hefðbundinn farveg.“

Þarf að leysa úr NPA-málinu

Steingrímur nefndi að NPA-málið sé stórt mál sem þurfi úrlausnar í viðbót við það hefðbundna en það snýst um notendastýrða persónulega aðstoð. „Það voru heitstrengingar og loforð um að því yrði bjargað með ráðstöfunum fyrir áramót, annað hvort yrði frumvarpið afgreitt og lög sett, eða þá gerðar bráðabirgðaráðstafanir, sagði hann og taldi að vegna þess gæti orðið nauðsynlegt að kjósa í velferðarnefnd.

Þá yrði kosið í fleiri nefndir en í fyrra þegar þrjár nefndir voru settar á fót með bein verkefni, eða fjárlaganefnd, efnahags- og viðskiptanefnd og allsherjar- og menntamálanefnd.

Að sögn Steingríms er heilmikil vinna framundan hjá formönnum þingflokkanna. „Nú erum við með átta þingflokka. Þeir gömlu og reyndu eru vanir þessu og vita hvað í vændum er en hinir þurfa  að átta sig á því að þeirra bíður það að semja fyrir hönd síns þingsflokks um hlutdeild í nefndum og öðru slíku. Þannig að það var mjög gott að fara yfir þetta allt saman, sérstaklega með nýliðunum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert