Fundað um mögulegt ríkisstjórnarsamstarf

Þingflokkur Vinstri-grænna fundar nú í Alþingishúsinu, en fundurinn hófst rétt fyrir klukkan níu. Ætla má að á fundinum séu ræddar forsendur fyrir samstarfi Vinstri-grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í ríkisstjórn. En líklegt þykir að þessir flokkar láti reyna á formlegar stjórnarmyndunarviðræður.

Þá fundar þingflokkur Sjálfstæðisflokksins í Valhöll, að því er fram kemur á Vísi.is. Bjarni Benediktsston, formaður flokksins, sagði í samtali við fréttamann rétt fyrir fundinn að viðræður flokkanna væru skammt á veg komnar og að á fundinum stæði til að ræða forsendur mögulegs ríkisstjórnarsamstarfs þessara þriggja flokka.

Fyrir liggur að Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri-grænna, gerir kröfu um forsætisráðherrastól í þeirri ríkisstjórn og Framsóknarflokkurinn styður þá hugmynd. Sjálfstæðisflokkurinn gerir hins vegar líka tilkall til forsætisráðuneytisins.

mbl.is/​Hari
mbl.is