Dónalegt að ræða við Katrínu

Logi bíður kalls Katrínar.
Logi bíður kalls Katrínar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Hún er í viðræðum núna og ég vil ekki blanda mér inn í þær. Mér finnst það dónalegt.“ Þetta segir Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, aðspurður hvort hann hafi rætt við Katrínu Jakobsdóttur, formann Vinstri grænna, nú um helgina.

Í samtali við mbl.is í gær sagði Logi Vinstri græn hafa skýran valkost til hægri eða vinstri. Það mat stendur. „Hún er afburða stjórnmálakona og auðvitað í því hlutverki að gera það besta fyrir sinn flokk og mun örugglega leggja sig alla fram þar. Ég treysti henni bara til þess.“

Hann hefur ekki áhyggjur af að fimm flokka stjórn Samfylkingar, Vinstri grænna, Pírata, Viðreisnar og Flokks fólksins með tæpasta mögulega meirihluta, 32 þingmenn, sé of tæp.

 „Ég er voðalega lítið gefinn fyrir það að hafa fyrirframáhyggjur af því að einhver hlaupist á brott. Ef þú ert með samstilltan hóp og getur undirbúið vinnuna og lagt góðan grunn að verkinu þá kemst byggingin yfirleitt skammlaust upp. Ég hef séð nú nýlega stærsta flokk landsins vera í stjórnarandstöðu og stjórn samtímis,“ segir Logi og vísar til þeirrar andstöðu sem var innan raða Sjálfstæðisflokksins á síðasta kjörtímabili við mörg stjórnarfrumvörp. 

Samleið með Flokki fólksins í mörgu

Logi fundaði með Ingu Sæland, formanni Flokks fólksins, í dag og kom þar fram að Inga er til í að hefja viðræður við vinstriflokkana um myndun ríkisstjórnar.

Hann var spurður að því um miðjan september hvort hann gæti hugsað sér að vinna með Flokki fólks­ins. Þar sagði hann Sam­fylk­ing­una eiga sam­leið með flokkn­um þegar kæmi að málefnum þeirra sem minna mega sín í sam­fé­lag­inu.

Hins veg­ar væri stefna Flokks fólks­ins í mál­efn­um flótta­manna og hæl­is­leit­enda glanna­leg. For­senda sam­starfs væri að horfið yrði frá þeirri stefnu hans.

Aðspurður segir Logi útlendingamál hafa borið á góma á fundi þeirra Ingu í dag og hann sannfærst um að flokkarnir væru sammála um margt sem að þessu lýtur. Þessi mál þurfi bara að skoða eins og önnur.

„Mér hefur nú sýnst vera nokkuð frjálst skotleyfi í Sjálfstæðisflokknum í þessum málum,“ segir Logi en Ásmundur Friðriksson, þingmaður flokksins, hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir orðræðu í garð hælisleitenda upp á síðkastið, auk þess að fara frjálslega með staðreyndir um kostnað við móttöku þeirra. „En við munum ekki gefa neinn afslátt af okkar stefnu þar,“ segir Logi.

mbl.is