Ekki gott veganesti inn í viðræðurnar

Grétar segir meirihlutann ekki jafntraustan og lagt var upp með.
Grétar segir meirihlutann ekki jafntraustan og lagt var upp með. mbl.is/Eggert

„Það er ekkert sérstaklega gott að fara með það veganesti inn í viðræðurnar að það séu tveir þingmenn af ellefu sem vilja það ekki. Auðvitað getur flokkurinn þetta án þeirra. Þetta er ekkert útilokað, en auðvitað er það engin óskastaða að fara svona inn.“

Þetta segir Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri, um niðurstöðu fundar þingflokks Vinstri grænna í dag, þar sem níu þingmenn af ellefu samþykktu að farið yrði í formlegar stjórnarmyndunarviðræður við Sjálfstæðis- og Framsóknarflokk.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Andrés Ingi Jónsson voru mótfallin því að fara í viðræðurnar. Rósa Björk sagði í samtali við mbl.is að hún hefði staðið með sinni sannfæringu og að hún bæri ekki traust til Sjálfstæðisflokksins.

„Svo auðvitað vakna spurningar um það, fyrst tveir af ellefu í þingflokknum eru mótfallnir formlegum viðræðum, hvernig liggur í grasrótinni. Það virðist vera að það sé ósætti um þetta í flokknum, í bili alla vega,“ segir Grétar jafnframt.

Ekki jafnsterkur meirhluti og lagt var upp með

Hann bendir á að þrátt fyrir að þessir tveir þingmenn styðji ekki viðræðurnar hafi þingflokkarnir enn 33 þingmenn á bak við sig, en hefðu haft 35. „Þetta er auðvitað meirihluti, en ekki jafnsterkur meirihluti og lagt var upp með. Þetta er örlítið traustari meirihluti heldur en var hætt við um daginn,“ segir Grétar og vísar þar til viðræðna á milli Vinstri grænna, Framsóknarflokksins, Samfylkingarinnar og Pírata, sem slitið var á mánudag í síðustu viku. Það var Framsókn sem sleit viðræðunum vegna þess að þeim þótti meirihlutinn sem flokkarnir höfðu á bak við sig of naumur til að takast á við erfið verkefni fram undan. Flokkarnir fjórir hefðu haft 32 þingmanna meirihluta, sem er minnsti mögulegi meirihluti á þingi.

Grétar Þór Eyþórsson, prófessor við Háskólann á Akureyri.
Grétar Þór Eyþórsson, prófessor við Háskólann á Akureyri. Auðunn Níelsson

Þessi óeining innan þingflokks Vinstri grænna kemur þó Grétari ekki á óvart. „Mann var farið að gruna það í gær, eftir þennan maraþonfund, að það væru ekki allir á eitt sáttir. Bara þá við að fara í viðræður, það var ekki eins og verið væri að kjósa um stjórnarsáttmála,“ segir Grétar, en þingflokkur Vinstri grænna fundaði í fimm klukkutíma í gærkvöldi án þess að niðurstaða fengist um það hvort flokkurinn samþykkti að fara í formlegar viðræður við Framsóknar- og Sjálfstæðisflokk. Sú niðurstaða lá ekki fyrir fyrr en á fund þingflokksins í dag, líkt og fram hefur komið.

Málefni til eða frá skipta varla máli

Það hefur legið fyrir að Vinstri græn vilja leiða ríkisstjórn og Katrín Jakobsdóttir, formaður flokksins, hefur ítrekað sagst tilbúin að leiða stjórn um góð málefni. Grétar segir hins vegar ljóst að með því að fara í áðurnefndar stjórnarmyndunarviðræður sé verið að fórna ákveðinni samstöðu innan flokksins. „Næsti kafli er auðvitað að sjá hvernig þeim gengur að semja og hvernig sá málefnasamningur lítur út.“

Grétar segir þó orð Rósu Bjarkar, um að hún beri ekki traust til Sjálfstæðisflokksins, benda til þess að að það skipti ekki máli hvernig samið verði um málefni í þessum viðræðum. Það sé einfaldlega prinsipp í hennar huga að fara ekki í viðræður við Sjálfstæðisflokkinn. „Það er ekki líklegt að einhver málefni til eða frá skipti máli.“

Grétar telur þó ekki þessi staða komi til með að veikja samningsstöðu Katrínar gagnvart formönnum hinna flokkanna. „Eftir því sem manni skilst þá er farið inn í þetta á þeim forsendum að hún verði forsætisráðherra. Hún fer nú örugglega ekki að hvika neitt frá því. Kannski því síður núna þegar hún er ekki með allan þingflokkinn með sér. Hún ætti þá að leggja harðari áherslu á það, myndi ég halda. Ef hún gerir það ekki er hún farin að tapa stórum þætti í þessu, sem var að gera kröfu um forsætisráðuneytið.“

mbl.is