Þeirra hugmyndir greinilega nær mínum

Logi segir að Samfylkingin muni halda sínu striki.
Logi segir að Samfylkingin muni halda sínu striki. mbl.is/Hari

„Ég tel að þetta sé ekki svar við þeim atburðum sem hafa leitt til falls síðustu tveggja ríkisstjórna. Ég óttast að þó svo að ríkisstjórnin geti eflaust unnið mörg góð verk þá muni ekki takast að koma á neinum pólitískum stöðugleika í landinu,“ segir Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, nú þegar liggur fyrir að Vinstri græn, Sjálfsæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn, munu hefja formlegar stjórnarmyndundarviðræður.

Fram eftir degi var óvissa um það hvort þingflokkur Vinstri grænna myndi samþykkja að fara í formlegar viðræður við flokkana tvo um myndun ríkisstjórnar. Þingflokkurinn fundaði í fimm tíma í gær án þess að niðurstaða fengist í málið, en um miðjan dag í dag var kosið um það hvort fara ætti í viðræður eða ekki. Níu þingmenn af ellefu greiddu atkvæði með því að fara í viðræður.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Andrés Ingi Jónsson greiddu atkvæði gegn því að fara í viðræðurnar. „Þau eru bundin af sannfæringu og þeirra hugmyndir um þau verkefni sem eru framundan og þann trúverðugleika sem verkefnin þurfa að hafa, eru greinilega nær mínum hugmyndum,“ segir Logi.

Skiptir máli að tala eins fyrir og eftir kosningar

Ljóst er að töluverðrar óánægju gætir í grasrót og baklandi Vinstri grænna vegna ákvörðunar þingflokksins og fjölmargir kjósendur hafa lýst yfir vonbrigðum sínum á samfélagsmiðlum í dag. Logi segist ekki hafa hugmynd um það hvort óánægðir kjósendur Vinstri grænna komi til með að leita til Samfylkingarinnar. „Við munum bara halda okkar striki. Mér finnst prinsipp skipta máli í pólitík. Mér finnst það skipta máli að tala eins fyrir kosningar og eftir kosningar. Það er það sem ég mun gera sjálfur og brýna fyrir mínu fólki að gera. Hvaða afleiðingar það hefur svo, til góðs eða ills, það verður að koma ljós.“

Í dag hvöttu Ungir jafnaðarmenn, ungliðahreyfing Samfylkingarinnar, ungt vinstrisinnað fólk til að skrá sig í Samfylkinguna og taka þátt í starfinu þar, í færslu sem birtist á Twitter. Aðspurður segist Logi ekki hafa neina skoðun á þessu útspili ungliðahreyfingarinnar.

Tímanum vel varið með Viðreisn og Pírötum 

Forystufólk úr röðum Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata, hittist á fundi á föstudag og stillti saman strengi sína. Tilgangur fundarins var tvíþættur, annars vegar að kanna grundvöll fyrir mögulegu samstarfi flokkanna í ríkisstjórn og hins vegar að þétta raðirnar fyrir stjórnarandstöðu.

„Það lá fyrir að þegar viðræður þessara þriggja flokka fóru af stað um stjórnarmyndun að við þyrftum annars vegar að vera tilbúin til þess að taka þátt í einhvers konar viðræðum frá miðju til vinstri ef upp úr slitnaði, og á hinn bóginn ef það tækist hjá þeim, að þjappa okkur saman og undirbúa okkur undir stjórnarandstöðu. Þeim tíma var vel varið. Á þessum þriggja flokka fundi voru komin saman frjálslyndu öflin í íslenskum stjórnmálum, og mér sýnist á því sem nú er að verða til, að ekki veiti nú af,“ segir Logi, en hann átti einnig fund með Ingu Sæland, formanni Flokks fólksins, í gær.

Þrátt fyrir að ákveðið hafi verið að fara í formlegar stjórnarmyndunarviðræður af hálfu Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, þá er ríkisstjórn ekki í höfn. „Við erum ennþá reiðubúin til þess að koma að viðræðum ef uppúr slitnar, en það kæmi mér í augnablikinu afar mikið á óvart, miðað við það sem ég hef heyrt frá fulltrúum þessara þriggja flokka í fjölmiðlum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina