„Aðdáunarvert“ að sjá forsetann að störfum

Bessastaðir.
Bessastaðir. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Forsetinn verkstýrir þessu. Það er aðdáunarvert að sjá hvernig hann gerir þetta. Hann stýrir stjórnarmyndunarviðræðum meira en forverar hans í starfi hafa gert. Hann veitir stutta fresti og er í daglegu sambandi við forystumenn flokkanna. Hann telur það nauðsynlegt í ljósi reynslunnar að stýra þessu nákvæmar,“ segir Svanur Kristjánsson, prófessor í stjórnmálafræði, spurður um stjórnarmyndunarviðræðurnar.

Svanur bendir á að Guðni Th. Jóhannesson sé mesti sérfræðingurinn í stjórnarmyndunarviðræðum. Hann gangi skipulega til verks og nýti þekkingu sína og rannsóknir á því hvernig þetta er gert. Hann þekkir þetta út og inn þar sem þetta hefur verið hans helsta rannsóknarsvið sem fræðimanns. Til að mynda skrifaði hann bókina Völundarhús valdsins um embætt­istíð Kristjáns Eld­járns, fyrr­ver­andi for­seta Íslands.  

Svanur Kristjánsson prófessor.
Svanur Kristjánsson prófessor. Ljósmynd/Aðsend

„Aðalatriðið er að forsetinn verkstýrir þessu“

„Hann hefur lýst því að helsta hlutverk forsetans sé að koma á ríkisstjórn, þess vegna hefur hann verið mikið í samband við forystumenn flokkanna og veitir þeim umboð sem er líklegastur til að koma á stjórn. Það sem er að gerast núna er að þessir þrír flokkar ætla að mynda stjórn og langlíklegast að þeim takist það. Þegar þeir eru búnir að semja stjórnarsáttmálann, skipta á milli sín verkum og formlega verður gengið frá því að Katrín verði forsætisráðherr,a þá verður forsetanum tilkynnt það og hann mun kalla Katrínu á Bessastaði og hún mun fá hið formlega umboð. Aðalatriðið er að forsetinn verkstýrir þessu, hvort hann veitir formlegt umboð eða ekki fer eftir því hvernig hann metur stöðuna hverju sinni,“ segir Svanur spurður hvort það hafi einhverja þýðingu fyrir leiðtoga stjórnmálaflokks að vera með umboð til stjórnarmyndunar þar sem þrír flokkar, Vinstri grænir, Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn eru í formlegum stjórnarmyndunarviðræðum án þess að einhver þeirra sé með umboðið.

Guðni tilbúinn að kalla til utanþingsstjórn 

Svanur bendir á að Guðni hafi þegar brotið blað í sögunni þegar hann veitti Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstri grænna, umboð gagngert til að mynda fjögurra flokka stjórn með Fram­sókn­ar­flokknum, Sam­fylk­ingunni og Pírötum. Hann rekur ekki minni til að forseti hafi gert slíkt áður. 

„Það vofir líka yfir að Guðni er reiðubúinn að mynda utanþingsstjórn ef flokkarnir geta ekki myndað stjórn,“ segir Svanur. 

Hvorki sigurvegari né sá stærsti eiga sjálfkrafa réttinn

Guðni er skýr, gengur hreint til verks og vill að allir flokkar njóti sannmælis, að sögn Svans. Í því samhengi bendir hann á þegar Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði eftir kosningar að hann ætti að fá umboðið í ljósi þess að flokkurinn hefði fengið mest fylgi. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, taldi eftir kosningar að hann ætti að fá stjórnarmyndunarumboðið því hans flokkur hefði verið sigurvegari kosninganna.

„Þegar Guðni veitti Katrínu umboðið tók hann sérstaklega fram að stærsti flokkurinn ætti engan rétt á að fá umboðið heldur værir aðalatriðið að veita þeim umboðið sem hefði mestan áhuga á að mynda stjórn. Guðni tók líka sérstaklega fram að sigurvegari kosninganna ætti engan rétt á að fá umboð til stjórnarmyndunar. Þetta byggist allt á hans mati og viðtölum við formenn um hver er líklegastur til að mynda stjórn,” segir Svanur. 

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands.
Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is