VG veiti Sjálfstæðisflokki uppreist æru

Sigmundur Davíð Gunnlausson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlausson, formaður Miðflokksins. mbl.is/​Hari

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir að komið hafi í ljós að stjórnarmyndunarviðræður vinstriflokkanna „voru ekki bara leiksýning af hálfu Framsóknarflokksins heldur VG líka“.

„Ljóst er að starfandi formenn flokkanna þriggja [Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri-grænna] þurfa allir á því að halda að komast í ríkisstjórn til að halda velli, þ.e. komast hjá því að verða settir af eða deyja (pólitískt) úr leiðindum. Óleyst er þó gátan um einkar óvenjulega hegðun Sjálfstæðisflokksins,“ skrifar Sigmundur Davíð á vefsíðu Miðflokksins.

Kallaður glæpamaður 

„Formaður flokksins þráir nú að komast í ríkisstjórn með fólki sem hefur um langt skeið kallað hann glæpamann og öðrum verri nöfnum. Hann leitast við að koma til valda fólki sem gekk hart fram við að reyna að koma fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra í fangelsi, ásamt fjármálaráðherra flokksins,“ bætir Sigmundur við.

„Auk þess áformar hann að brjóta blað með því að gera sósíalista að forsætisráðherra á Íslandi í fyrsta skipti. Full ástæða verður til að óska Katrínu Jakobsdóttur til hamingju með að ná þessum áfanga og að hafa tekist ætlunarverkið með því að beygja bæði grasrót eigin flokks og allan Sjálfstæðisflokkinn samtímis. Það er ekki lítið afrek.“

Bjarni Benediktsson, Katrín Jakobsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson, formenn þeirra ...
Bjarni Benediktsson, Katrín Jakobsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson, formenn þeirra þriggja flokka sem nú ræða ríkisstjórnarmyndun, hittust í ráðherrabústaðnum í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Formaður Sjálfstæðisflokksins „farþegi“

Að sögn Sigmundar hafa Vinstri-grænir ákveðið að veita Sjálfstæðisflokknum uppreist æru. Svo virðist sem VG ætli einnig að leyfa Bjarna Benediktssyni að verða ráðherra í ríkisstjórninni þrátt fyrir fyrri efasemdir þar um. Óvíst virðist jafnframt hvort hann fái að halda utan um efnahagsmálin í fjármálaráðuneytinu.

„Formaður Sjálfstæðisflokksins virðist raunar vera farþegi í allri þessari atburðarás og lætur fulltrúa samstarfsflokkanna um að útlista hvað er um að vera. Lofsverð hreinskilni formannsins birtist þó við upphaf viðræðnanna þegar hann útskýrði að stjórnarmyndunin snerist fyrst og fremst um að mynda sterka ríkisstjórn en ekki um stefnumál flokkanna.“

Sigmundur talar um að ríkisstjórn sem verði mynduð á grundvelli „ímyndarstjórnmála“ verði alltaf byggð á hégóma frekar en stefnu. Hún muni snúast um stólana sem menn sitja í en ekki verkefnin.

mbl.is