„Þessu miðar hægt en örugglega“

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir stjórnarmyndunarviðræður flokksins við Framsókn …
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir stjórnarmyndunarviðræður flokksins við Framsókn og Sjálfstæðisflokk ganga hægt en örugglega. mbl.is/Árni Sæberg

Formenn og þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Vinstri grænna og Framsóknarflokks, sem vinna að myndun nýrrar ríkisstjórnar, hafa ekki komið saman til fundar í dag.

„Flokkarnir eru ekki að funda sjálfir í dag heldur erum við meira að vinna heimavinnu,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, í samtali við mbl.is.

Hlé var gert á stjórnarmyndunarviðræðum eftir hádegi á föstudag vegna áður boðaðs miðstjórnarfundar Framsóknarflokksins sem fram fór á Laugabakka í Miðfirði. Katrín, Sigurður Ingi Jóhannsson og Bjarni Benediktsson hittust aftur síðdegis í gær.

Katrín segir að helgin hafi verið nýtt í fara yfir stöðu viðræðnanna með flokksmönnum, ásamt því að sinna öðrum verkefnum. „Eins og að mæta í barnaafmæli og svona,“ segir hún létt í bragði, en hún var einmitt nýkomin úr einu slíku þegar blaðamaður mbl.is náði af henni tali.

„Síðan fer væntanlega að líða að því að við förum að ræða við þingmenn í okkar flokkum um einstaka þætti áður en við reynum að setjast aftur niður yfir þetta sameiginlega.“

Katrín segir góðan gang vera í viðræðunum en krafan um að allt gangi hratt fyrir sig sé afar hávær. „Það er ekki hægt að ætlast til þess þegar þrír ólíkir flokkar setjist niður að allt smelli bara á einni mínútu. Við erum í miðri á í verkefninu en þetta hefur gengið ágætlega. Þessu miðar hægt en örugglega.“

Katrín, Sigurður Ingi og Bjarni munu hittast á fundi klukkan 9:30 í fyrrmálið þar sem stjórnarmyndunarviðræðunum verður áfram haldið. Katrín segir að ekki sé tímabært að segja til um hvenær málefnasamningur muni liggja fyrir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert