160 félagar VG mæta á flokksráðsfund

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna. mbl.is/​Hari

Um hundrað og sextíu félagar í VG, víða að af landinu hafa skráð sig á flokksráðsfund Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, sem fram fer á Grand Hótel síðdegis á morgun. Eina málið á dagskrá þessa aukaflokksráðsfundar er ríkisstjórnarsáttmáli Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, kynning, umræða og kosning. Þetta kemur fram í tilkynningu frá flokknum. 

Fundurinn er opinn öllum félögum í VG en atkvæðisrétt hafa aðeins fulltrúar í flokksráði. Þeir eru ríflega hundrað talsins.  40 þeirra eru kosnir sérstaklega í flokksráð, en til viðbótar eiga sæti í ráðinu aðalmenn í stjórn, þingmenn, sveitarstjórnarfulltrúar, formenn kjördæmisráða, formenn félaga, fulltrúi Eldri vinstri grænna og fulltrúi Ungra vinstri grænna.

Fundur flokksráðs er aðeins opinn félögum í VG. Fundurinn er lokaður fjölmiðlum.

mbl.is