Ekki einsdæmi í sögunni

Flokks­ráðsfundur Vinstri grænna stendur yfir.
Flokks­ráðsfundur Vinstri grænna stendur yfir. mbl.is/Hari

Misjafnar reglur gilda í stjórnmálaflokkum um stöðu þeirra þingmanna sem styðja ekki stjórnarsáttmála flokksins síns. Tveir þingmenn Vinstri grænna greiddu ekki atkvæði með stjórnarmáttmála verðandi ríkisstjórnarflokkanna þriggja eins og greint hefur verið frá.

Það er ekki einsdæmi í sögunni að þingmenn styðji ekki sáttmálann, að sögn Ólafs Þ. Harðarsonar stjórnmálafræðings. Slíkt sé hins vegar ekki algengt. Honum er ekki nákvæmlega kunnugt um hversu oft slíkt hefur gerst áður.

Þegar þingmenn taka slíka afstöðu er ekki hefð fyrir því að þeir segi sig úr flokknum en misjafnt er hver staða þeirra er innan þingflokksins, að sögn Ólafs. „Ég kann ekki reglurnar í VG hvort hægt sé að reka menn úr flokknum fyrir þetta,“ segir Ólafur. 

Lakara að vera með 33 í stað 35

„Það er auðvitað lakara að vera með 33 þingmenn í stað 35 en það er alveg hægt að lifa með því,“ segir Ólafur um afstöðu Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur og Andrésar Inga Jónssonar, þingmanna VG. Tekið skal fram að þegar rætt var við Ólaf lá ekki ljós fyrir niðurstaða atkvæðagreiðslu VG um sáttmálann.  

Ólafur nefnir sem dæmi að þegar nýsköpunarstjórnin var mynduð árið 1944 voru fimm þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem studdu ekki stjórn Sjálfstæðisflokks og Sósíalistaflokks. „Þeir voru óánægðir með að sjálfstæðismenn væru í stjórn með kommúnistum,“ segir Ólafur. Þeir hafi ekki sagt sig úr flokknum. 

Hins vegar eru mörg dæmi um að það hafi kvarnast úr stjórnarliðinu á kjörtímabilinu. Til að mynda gerðist slíkt í flokki Vinstri grænna á árunum 2009 til 2013. 

Næstu daga hyggst Ólafur fletta upp í sögunni og kanna þetta atriði nánar.  

Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði við HÍ.
Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði við HÍ. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert