Ætla að efla stöðu brotaþola í kerfinu

Katrín Jakobsdóttir, Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson voru gestir …
Katrín Jakobsdóttir, Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson voru gestir Kastljóssins í kvöld. mbl.is/Eggert

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði mikilvægt að þverpólitísk sátt ríkti um að brotaþolum kynferðisbrota yrði sinnt betur í stjórnkerfinu. Hún var spurð í Kastljósinu á Rúv í kvöld um gagnrýni Vinstri grænna á samskipti Bjarna Benediktssonar og Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra varðandi uppreist æru. Auk Katrínar voru Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra gestir Kastljóss.  

Katrín sagði að óskað hefði verið eftir öllum upplýsingum um allt þetta mál í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. „Við tókum þetta mál og settum upp á yfirborðið í gegnum þann farveg. Hins vegar sagði ég líka í kringum þá merkilegu vakningu sem varð í kringum brotaþola í þessu samfélagi að við vinnum áfram með málið,“ sagði Katrín. 

Hún sagði jafnframt að mikilvægast væri að skapa þverpólitíska samstöðu á Alþingi um að gerð yrði bragarbót á því hvernig málum brotaþola kynferðisbrota væri sinnt, fylgt eftir og réttarstaða þeirra væri tryggð. Hún vísaði til yfirgripsmikils kafla um þetta mál í stjórnarsáttmálanum. „Við höfum í hyggju að veita aukna fjármuni í þessi mál og það þarf að tryggja að þessi vitundarvakning skili sér í varanlegri breytingu.“

„Ég veit ekki til þess að neitt standi út af borðinu“

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, tók undir með Katrínu og sagði að málið hefði verið skoðað og rætt, meðal annars inni á nefndasviði Alþingis. „Það sem snýr að stjórnsýslunni hefur fengið skoðun. Ég veit ekki til þess að neitt standi út af borðinu með það,“ sagði Bjarni. Hann benti einnig á stjórnarsáttmálann sem bæri þess merki að stjórnmálamenn hefðu hlustað á raddir samfélagsins um þennan málaflokk.   

mbl.is

Bloggað um fréttina