Fá 40% af framlagi til íbúa á Austurlandi

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Verulegur munur er á framlögum ríkisins til stofnana á Suðurnesjum og á öðrum stöðum á landinu samkvæmt tölulegum samanburði fjárlagafrumvarpi ársins 2014 sem Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum lét gera. Þetta sagði Ásmundur Friðriksson þingmaður Sjálfstæðisflokksins á Alþingi í kvöld.

Jafnræðið sé mikilvægur þáttur í starfi nýrrar stjórnar og allir landsmenn eigi að sitja við sama borð þegar kemur að skiptingu framlaga ríkisins.

Benti Ásmundur á að starfsemi Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja fái 40% framlag á við hvern íbúa miðað við Heilbrigðisstofnun Austurlands og lægst framlag af þeim stofnunum sem eru í nálægð við höfuðborgina, eða 43% af því sem Heilbrigðisstofnun Vesturlands fær.

Fjárframlög ekki fylgt fjölgun íbúa

Sé fjöldi hjúkrunarrýma í heilbrigðisumdæmi Suðurnesja skoðaður, þá sé umdæmið með fæst rými á landinu eða 5,4 rými, á meðan landsmeðaltal sé 7,4 rými á hverja 1.000 íbúa.

Samantekt frá því í ár sýni að fjárframlög til stofnanna á Suðurnesjum sýni að framlögin þangað séu enn víða lægst og hafi ekki á nokkurn hátt náð að fylgja eftir fjölgun íbúa á svæðinu. „Þeim hefur fjölgað um 16,2% á árunum 2010-2017.  Þessi fjölgun er ánægjuleg en jafnframt mikil áskorun fyrir sveitarfélögin á Suðurnesjum að taka á móti öllum þessum nýju íbúum, en allir innviðir eru fullnýttir og mikil uppbygging fram undan,“ sagði Ásmundur.

Markmið ríkisstjórnarinnar um að hagsældin skili sér til samfélagsins eigi við um Suðurnes og því sé mikilvægt að nýta kjörtímabilið til þess að bæta úr svo allir sitji við sama borð.

„Eitt af megin markmiðum ríkisstjórnarinnar er uppbygging heilbrigðiskerfisins. Heilbrigðisstofnanir um land allt eru hluti af þeirri uppbyggingu sem kallar á aukið fjármagn, til reksturs sjúkrahúsa, sjúkraflutninga og tækjakaupa. Landsspítalinn er mikilvægasta stofnunin en hún er ekki allt heilbrigðiskerfið. Heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni eru grunnstoðir hvers samfélags og við ætlum að stöndum vörð um þær.“

Meðferðastofnanir séu líka hluti heilbrigðiskerfisins og þar séu unnin kraftaverk á hverjum degi. „Það er skylda okkar sem hér sitjum að styrkja stoðir þessara stofnana enn frekar og fylla upp í götin á hallarekstri þeirra,“ sagði Ásmundur

Ekki ætti að fara fram hjá neinum að heilbrigðismál séu í forgangi hjá nýrri stjórn. „Ætlunin er að styrkja meðferðarstofnanir og gera stórátak í geðheilbrigðismálum. Á komandi ári verða niðurgreiðslur á tannlæknakostnaði eldri borgara og öryrkja auknar, sérstök innspýting í heilsugæslu um allt land, og sjúkrahúsþjónusta, ekki síst út á landi, styrk, jafnt til rekstrar og tækjakaupa.“

mbl.is

Bloggað um fréttina