„Þetta reddast“ ekki alltaf farsælt viðhorf

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnar­ráð­herra, segir óvenjulegar aðstæður kalla ...
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnar­ráð­herra, segir óvenjulegar aðstæður kalla á breytt vinnubrögð. mbl.is/Eggert

„Núverandi ríkisstjórnarsamstarf þriggja stærstu þingflokkanna á Alþingi byggist á sameiginlegri sýn ólíkra flokka sem hafa það markmið að vinna að ákveðnum lykilverkefnum sem koma Íslandi í fremstu röð.“ Þetta sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnar­ráð­herra, á Alþingi í kvöld.

Auka þurfi samkeppnishæfni landsins til að ungt fólk vilji búa á Íslandi og til að svo megi verða þurfi innviðir samfélagsins að vera sterkir alls staðar á landinu. Eins sé það markmið ríkisstjórnarinnar að tryggja öldruðum áhyggjulaust ævikvöld.

„Óvenjulegar aðstæður í þjóðfélaginu kalla á breytt vinnubrögð, opnari stjórnsýslu, gagnsæi og virðingu gagnvart verkefnum,“ sagði Sigurður Ingi og kallaði eftir lausnamiðaðri nálgun stjórnmálamanna með velferð almennings að leiðarljósi um leið og hann kvaðst vona eftir góðu samstarfi við minnihlutann.

„Sameiginleg gildi eins og ábyrgð, framsýni og þjónusta geta styrkt liðsheildina hér á Alþingi til að ná sem bestum árangri fyrir land og þjóð.“

Langtímaáætlanir og samráð auki fyrirsjáanleika

Góð niðurstaða sem náist í samtali fleiri flokka haldi til lengri tíma og stuðli um leið að meiri sátt í samfélaginu.

Stór verkefni séu framundan, þar sem horfa þurfi til lengri tíma en viðhalda um leið stöðugleika.

Langtímaáætlanir og samráð auki fyrirsjáanleika. „Við Íslendingar höfum stundum fengið að heyra að ákvarðanir okkar miðist við viðkvæðið  „þetta reddast”. Það leiðarljós hefur ekki alltaf verið okkur farsælt og þurfum við sem þjóð að miða ákvarðanir til lengri tíma. Áskoranir framtíðarinnar beinlínis krefjast þess að við vinnum í þágu hagsældar landsins og veltum langtímamarkmiðinu fyrir okkur. Við þurfum að spyrja okkur hvernig við viljum sjá landið okkar þróast næstu 20 til 30 árin? Hvað gerist á næstu 10-20 árum? Hvernig ætlum við að efla samkeppnishæfni landsins og hvað við þurfum að gera í nánustu framtíð til að styðja þau áform?“

Kvað Sigurður Ingi þessa hugsun ekki síst eiga við í þeim stóru framkvæmdum sem framundan séu, því tryggja þurfi að allir landsmenn búi við sömu skilyrði til þjónustu hins opinbera, hafi jöfn tækifæri til atvinnuþróunar og að atvinnulíf verði fjölbreytt á hverjum stað.

Landið allt þarf að vera í blómlegri byggð

Undirstöðuatvinnugreinarnar ferðaþjónusta, sjávarútvegur, orka, landbúnaður og skapandi greinar eigi allt undir að innviðir stuðli að heilbrigðum hagvexti til framtíðar. „Til að stuðla að frekari verðmætasköpun þarf landið allt að vera í blómlegri byggð og stefnumörkun í byggðamálum þarf að samþættast við sem flesta málaflokka.“

Atvinnulíf og nærsamfélög þurfi að geta tekist á við ytri breytingar og á svæðum með dreifða búsetu þurfi að vera atvinnulíf sem skapar verðmæti. „Við þurfum að horfa til byggðaaðgerða sem tíðkast í nágrannalöndum okkar, meðal annars með því að styrkja námslánakerfið og nýta svæðisbundna þekkingu sem best.“

Þarf að forgangsraða með tilliti til byggðarsjónarmiða

Svigrúm sé á næstu árum vegna góðrar afkomu ríkisins til að nýta eignatekjur ríkisins til að tryggja þá innviði sem séu forsendan fyrir fjölbreyttu og kröftugu atvinnulífi. „Hins vegar verður ekki hjá því komist að til þess að viðhalda stöðugleika um ókomin ár verður að forgangsraða stóru framkvæmdunum. Þá skiptir máli að við náum sameiginlegri niðurstöðu um það til lengri tíma, en ekki bara til næstu fjögurra ára,“ sagði Sigurður Ingi.

Þess vegna þurfi að forgangsraða í samgöngum „með tilliti til ólíkrar stöðu svæða á landinu, ferðaþjónustu, og öryggissjónarmiða. Við þá forgangsröðun þarf einnig að taka tillit til hagkvæmni og byggðarsjónarmiða og tengja byggðir og samfélög til að skapa stærri vinnusóknarsvæði en einnig að tryggja öruggar samgöngur við umheiminn. Samgöngur og fjarskipti skipa stóran sess í umgjörð og tækifærum landsins. Þær þurfa að styðja við hver aðra og samanstanda af öruggu vegakerfi, höfnum, flugvöllum og netöryggi.“

mbl.is