Miðflokkurinn og Flokkur fólksins brutu lög með SMS-um

Tæplega 140.000 SMS-skilaboð voru send til kjósenda daginn fyrir kjördag …
Tæplega 140.000 SMS-skilaboð voru send til kjósenda daginn fyrir kjördag og á kjördag frá tveimur stjórnmálaflokkum. AFP

SMS-skilaboð sem Flokkur fólksins og Miðflokkurinn sendu fjölda farsímanotenda fyrir alþingiskosningarnar síðastliðið haust brjóta gegn fjarskiptalögum. Þetta er niðurstaða Póst- og fjarskiptastofnunar sem birti í dag tvær ákvarðanir þess efnis á heimasíðu sinni.

Flokkur fólksins sendi 80.763 SMS-skilaboð 27. október, daginn fyrir kjördag. „Ertu með kosningarétt? Nýttu réttinn! Afnemum frítekjumark og hækkum skattleysismörk. Kær kveðja! Flokkur fólksins XF.“ Þessi skilaboð bárust fjölda einstaklinga dagana fyrir kosningar. 

Miðflokkurinn sendi 57.682 SMS-skilaboð á kjördag sem hljóðuðu svo: „Í dag er fagur dagur, Já góður við finnum það. Vertu Memm, settu X við M.“

Bárust tugir kvartana

Póst- og fjarskiptastofnun bárust tugir kvartana í kringum kosningarnar og nú hefur stofnunin greint frá því að báðir flokkarnir höfðu fengið fyrirtækið 1819 – Nýr valkostur ehf. til þess að senda skilaboð til tuga þúsunda farsímanotenda.

Meðal þess sem fram kemur í ákvörðunum stofnunarinnar er að skilaboð líkt og þau sem flokkarnir sendu teljast markaðssetning í formi fjarskipta. Þar er kveðið á um að „notkun sjálfvirkra uppkallskerfa, símbréfa eða tölvupósts, þ.m.t. hvers konar rafrænna skilaboða (SMS og MMS), fyrir beina markaðssetningu er einungis heimil þegar áskrifandi hefur veitt samþykki sitt fyrir fram.“

Eins og fram kemur í ákvæðinu þarf að afla sérstaks samþykkis frá hverjum viðtakanda fyrir sig áður en honum eru send rafræn skilaboð sem innihalda beina markaðssetningu. Það telst ekki samþykki fyrir móttöku slíkra skilaboða að hafa símanúmer sitt skráð í símaskrá án bannmerkingar.

Þá kemur fram í ákvörðun stofnunarinnar að sá aðili sem verið er að markaðssetja fyrir ber ábyrgð á að framkvæmd sé í samræmi við lög. Það að láta þjónustufyrirtæki annast útsendingar skilaboða fyrir sig firrir slíkan aðila ekki ábyrgð.

Miðflokkurinjn hvatti fólk til að vera memm og setja X …
Miðflokkurinjn hvatti fólk til að vera memm og setja X við M.
Flokkur fólksins hvatti kjósendur til að nýta kosningaréttinn.
Flokkur fólksins hvatti kjósendur til að nýta kosningaréttinn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert