Einn af þeim sem hafa fengið símtöl

Ólafur Arnarson hagfræðingur hugleiðir nú hvort hann bjóði sig fram …
Ólafur Arnarson hagfræðingur hugleiðir nú hvort hann bjóði sig fram til að leiða lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í borgarstjórnarkosningum. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég er einn þeirra sem hafa fengið nokkur símtöl,“ segir hagfræðingurinn Ólafur Arnarson sem staðfestir í samtali við mbl.is að hann liggi nú undir feldi og hugleiði að bjóða sig fram til að leiða lista sjálfstæðismanna í borgarstjórnarkosningunum í vor.

Framboðsfrestur til leiðtogakjörs sjálfstæðismanna fyrir komandi borgarstjórnarkosningar rennur út á morgun og hafa nú þau Eyþór Arnalds og borgarfulltrúarnir Kjartan Magnússon og Áslaug Friðriksdóttir tilkynnt að þau gefi kost á sér.

Hann segir það ekki hafa áhrif á sína ákvörðun að Eyþór hafi tilkynnt framboð sitt nú síðdegis. „Ég átti nú alltaf von á því að hann kæmi fram, svona miðað við umræðuna eins og hún hefur verið,“ segir Ólafur. „Þetta er fyrst og fremst persónulegt, ég og fjölskyldan. Þetta er ansi mikil ákvörðun og lítill tími af því að ég hafði ekkert verið að velta þessu þannig fyrir mér,“ bætir hann við. Það sé þó mikið sem gera megi betur, t.a.m. í húsnæðis- og samgöngumálum í borginni, sem geri þetta spennandi kost.

Spurður hvenær ákvörðun hans liggi fyrir segist hann ætla að ákveða sig fyrir lok kvölds. „Svo sef ég á þessu í nótt og sé svo hvernig ég vakna og hvort sú ákvörðun stendur ekki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert