Heiða sækist eftir öðru sæti á lista Samfylkingarinnar

Heiða Björg Hilmisdóttir.
Heiða Björg Hilmisdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi og varaformaður Samfylkingarinnar, hefur ákveðið að gefa kost á sér í flokksvali Samfylkingarinnar í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor og óskar hún eftir stuðningi í 2. sæti framboðslistans. 

Þetta kemur fram í tilkynningu.

Þar segir enn fremur, að á yfirstandandi kjörtímabili, sem er hennar fyrsta í borgarstjórn Reykjavíkur, hafi hennar verkefni verið afar fjölbreytt og henni hefur verið falin forysta á fjölmörgum mikilvægum og krefjandi sviðum borgarsamfélagins.

„Meðal annars hef ég setið í Borga[r]ráði, Velferðarráði, Stjórnkerfis- og lýðræðisráði, stjórn Sambands Íslenskra [sic] sveitarfélaga, Umhverfis- og skipulagsráði, stjórn Bjarkarhlíðar og gengt [sic] formennsku í Ofbeldisvarnarnefnd, Heilbrigðisnefnd, Fjölsmiðjunni, hjúkrunarheimilinu Skógarbæ, Lífeyrissjóði starfsmanna Reykjavíkurborgar og Strætó BS auk fjölmargra starfshópa um afmörkuð mál. Má þar t.d. nefna stefnumótunarhópa um Heilsueflingu í Reykjavík, atvinn[u]mál fatlaðra og matarstefnu Reykjavíkurborgar. 

Fjölbreyttara og skemmtilegra starf er vart hægt að hugsa sér, ekki síst þegar sýnilegur og mikilvægur árangur næst í góðu samstarfi. Þannig hefur það sannarlega verið á liðnum fjórum árum,“ segir Heiða í tilkynningu. 

Allar nánari upplýsingar um störf og stefnumál mín, má finna hér.mbl.is