Samfylkingin heldur flokksval í Reykjavík

Flokksvalið fer fram 10. febrúar.
Flokksvalið fer fram 10. febrúar. mynd/Heiðdís

Fulltrúaráð Samfylkingarinnar í Reykjavík hittist í morgun og samþykkti tillögu stjórnar fulltrúaráðsins um að halda flokksval til að velja á framboðslista fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor. Magnús Már Guðmundsson, formaður Samfylkingarfélagsins í Reykjavík, staðfestir þetta við mbl.is, en kosið verður um fyrstu átta sæti listans.

Segir Magnús að hægt verði að raða upp allt að tíu frambjóðendum á hverjum seðli en kjörið verði hefðbundið að öðru leyti. Gætt verður kynjahlutfalla í efstu sætum listans og verður hann annaðhvort fléttu- eða paralisti. Mun uppstillingarnefnd vinna úr kjörinu miðað við niðurstöður kosninganna komi til þess að gera þurfi breytingar.

Framboðsfrestur er til 25. janúar, en flokksvalið fer fram laugardaginn 10. febrúar. Mun kjörstjórn nú útfæra kosninguna og ákveða hvort kosið verður rafrænt eða á pappír.

Samfylkingin í Reykjavík er í dag með 5 af 15 borgarfulltrúum, en eftir kosningar fjölgar borgarfulltrúum upp í 23. Miðað við sama fylgi og í síðustu kosningum fengi Samfylkingin því með nýja fyrirkomulaginu 7-8 borgarfulltrúa.

mbl.is