VG heldur forval við val á lista í borginni

Vinstri-græn í Reykjavík ákváðu á félagsfundi í gærkvöldi að halda rafrænt forval við val á lista flokksins í borginni fyrir komandi borgarstjórnarkosningar.

Félagsmenn kusu á fundinum um hvort fara ætti í forval eða uppstillingu og varð fyrri kosturinn fyrir valinu. Forvalskosningar Vinstri-grænna fara fram 24. febrúar næstkomandi.

Allir þeir sem eru skráðir félagsmenn í VG og eiga lögheimili í Reykjavík hafa kosningarétt í forvali flokksins. Á félagsfundinum var einnig kosin kjörnefnd, sem gera mun tillögu að skipan framboðslista í kjölfar forvals.