Margir vilja vera á lista Sjálfstæðisflokksins

Valhöll, höfuðstöðvar Sjálfstæðisflokksins.
Valhöll, höfuðstöðvar Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Rax

Mikill áhugi er á að taka sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík vegna borgarstjórnarkosninganna í vor að sögn Sveins H. Skúlasonar, formanns kjörnefndar. Leiðtogakjör fór fram hjá sjálfstæðismönnum í Reykjavík í lok síðasta mánaðar þar sem Eyþór Laxdal Arnalds bar sigur úr býtum með rúmlega 60% greiddra atkvæða.

Sveinn H. Skúlason, formaður kjörnefndar.
Sveinn H. Skúlason, formaður kjörnefndar. mbl.is/Eyþór Árnason

Eftir að leiðtogakjörinu lauk var auglýst eftir fólki sem hefði áhuga á að vera á framboðslistanum og segir Sveinn að undirtektirnar hafi verið ótrúlega góðar. Fresturinn til þess að gefa kost á sér rann út á miðnætti 1. febrúar. Einnig var tekið við ábendingum frá hverfafélögum Sjálfstæðisflokksins varðandi mögulega frambjóðendur.

Sveinn segir að kjörnefndin hafi til þessa aðallega verið að sinna þeirri vinnu að safna saman nöfnum mögulegra frambjóðenda og hafi nú úr um 130 nöfnum að velja. Það megi segja að það sé ákveðið lúxusvandamál að velja á milli fjölda góðra einstaklinga. Nefndin hefur það verkefni að raða á framboðslistann frá sæti 2 og niður á eftir Eyþóri.

Langur vinnufundur sé fyrirhugaður á morgun og þá verður að sögn Sveins farið á fullt í þá vinnu að setja saman framboðslistann. Spurður hvenær þeirri vinnu gæti lokið og listinn legið fyrir segist hann ekki getað fullyrt um það en vonandi um miðjan mánuðinn.

Megináherslan verði hins vegar lögð á vönduð vinnubrögð og að setja saman góðan og sigurstranglegan framboðslista fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert