Meirihlutinn í borginni heldur

Borgarstjórnarkosningar fara fram 26. maí.
Borgarstjórnarkosningar fara fram 26. maí. mbl.is/Ómar Óskarsson

Meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur myndi halda velli og fengi 13 af 23 borgarfulltrúum ef kosið yrði nú samkvæmt könnun sem Gallup gerði fyrir Viðskiptablaðið og birt er í morgun. Fengju flokkarnir sem nú mynda meirihlutann samanlagt 54,7% atkvæða.

Fylgi meirihlutans minnkar þó nokkuð, aðallega vegna hruns í fylgi Bjartrar framtíðar. Einnig dalar fylgi Samfylkingarinnar miðað við síðustu kosningar og mælist nú 25,7%. Píratar og VG halda meirihlutanum á floti, eins og það er orðað í frétt Viðskiptablaðsins, og fengju 13,3% atkvæða hvor.

Sjálfstæðisflokkurinn bætir nokkuð við sig og fengi 29,1% atkvæða. Leiðtogakjör flokksins fór fram 27. janúar. Könnun Gallup var gerð dagana 4.-31. janúar.

Flokkur fólksins mælist með 4,8%, Viðreisn með 6,4% og Framsóknarflokkurinn með 2,9%. 

Sveitarstjórnarkosningar fara fram 26. maí og þá verður borgarfulltrúum fjölgað úr 15 í 23.

Könnunin var gerð dagana 4.-31. janúar. Um netkönnun var að ræða. Úrtakið var 2.021 Reykvíkingur, 18 ára og eldri. Fjöldi svarenda var 1.081 og þátttökuhlutfallið 53,5%.

Hér má lesa ítarlega frétt Viðskiptablaðsins um niðurstöðu könnunarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina