Miðflokkurinn auglýsir eftir framboðum í SV-kjördæmi

Miðflokkurinn stefnir á að bjóða fram í öllum bæjarfélögum í ...
Miðflokkurinn stefnir á að bjóða fram í öllum bæjarfélögum í Suðvesturkjördæmi í sveitarstjórnarkosningunum sem fram fara í vor. mbl.is/Þorsteinn Friðrik

Undirbúningur á framboði Miðflokksins stendur nú yfir í Suðvesturkjördæmi. Í fréttatilkynningu frá Miðflokksfélagi Suðvesturkjördæmis kemur fram að ákveðið hefur verið að nota uppstillingu við val frambjóðenda á framboðslistum Miðflokksins fyrir sveitarstjórnarkosningar sem fram fara í vor.

„Áhugasamt fólk búsett í Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði, Mosfellsbæ og Seltjarnarnesi sem hefur áhuga á að taka sæti á lista Miðflokksins er beðið um að senda Miðflokknum ósk sína um framboð,“ segir í tilkynningu. Framboðsfrestur rennur út 26. febrúar og stefnt er að því að tilkynna efstu frambjóðendur á framboðslitum fyrir 15. mars.

Þegar hefur verið ákveðið að flokkurinn bjóði fram í Reykjavík og Hafnarfirði og um helgina var tilkynnt að Vigdís Hauksdóttir, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokks, verði oddviti flokksins í Reykjavík.

mbl.is