Sætið var ætlað forsætisráðherra

Dagur B. Eggertsson.
Dagur B. Eggertsson. mbl.is/Hanna

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, segir að honum hafi komið á óvart að Eyþór Arnalds, oddviti sjálfstæðismanna í Reykjavík, hafi mætt til fundar sem Dagur boðaði til í Höfða í fyrradag með borgarfulltrúum og þingmönnum Reykjavíkur. Fundurinn hefði verið boðaður í tilefni af kjördæmaviku samkvæmt hefð í samráði við Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra.

„Ég heilsaði honum í andyri hússins og sagði honum hvernig í málinu lagi, fundurinn væri fyrir borgarstjórn og þingmenn en frambjóðendur hefðu ekki verið boðaðir. Ekkert fór á milli mála í þessum samskiptum. Þess var beðið í nokkrar mínútur að allir fundarmenn skiluðu sér og þegar forsætisráðherra var komin í hús bauð ég fundargestum að setjast við langborð,“ segir Dagur á Facebook-síðu sinni. Þá hafi Eyþór gengið í salinn.

„Þá brá svo við Eyþór gengur í salinn og býst til að setjast í auða sætið við hlið Guðlaugs, sem ætlað hafði verið fyrir forsætisráðherra. Við það gerði ég athugasemd, ítrekaði hvers eðlis fundurinn væri, hverjum hefði verið til hans boðið og að ég væri viss um að Vigdís Hauksdóttir hefði líka verið til í að sitja fundinn en hann hefði ekki verið ætlaður frambjóðendu.“ Vísar hann þar til oddvita Miðflokksins í Reykjavík.

Dagur segir að ef áhugi væri á slíkum fundi með frambjóðendum þyrfti að boða til hans sérstaklega. „Eyþór vék við svo búið af fundinum, forsætisráðherra tók sæti sitt en utanríkisráðherra upplýsti að hann hefði boðið Eyþóri. Voru ekki höfð uppi mikið fleiri orð um þetta atvik þótt sérstakt hafi verið.“ Dagur segir að óvenju létt hafi verið yfir fundinum og umræður málefnalegar. Ekki náðist í Dag í gær vegna málsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina