Einn utankjörfundarkjörstaður óviðunandi

Sýslumaðurinn í Reykjavík áætlar að utankjörfundarkosning í sveitarstjórnarkosningum í vor …
Sýslumaðurinn í Reykjavík áætlar að utankjörfundarkosning í sveitarstjórnarkosningum í vor í sjö sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins fari fram á eina og sama staðnum. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Samband sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) er ósátt við þá ákvörðun sýslumanns að aðeins eigi að halda úti einum kjörstað við utankjörfundaratkvæðagreiðslu í sjö sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins fyrir sveitarstjórnarkosningar í vor.

„Þetta er skerðing á þeirri þjónustu sem hefur verið,“ segir Páll Guðjónsson, framkvæmdastjóri SSH, í samtali við mbl.is. Sambandið ræddi ákvörðun sýslumanns á stjórnarfundi í gær.

Þórólfur Halldórsson, sýslumaður á höfuðborgarsvæðinu, sendi Páli póst 30. janúar þar sem kemur fram að gert er ráð fyrir að í fyrstu fari utankjörfundaratkvæðagreiðsla fram á skrifstofu sýslumanns í Hlíðarsmára í Kópavogi. Í póstinum kemur einnig fram að fljótlega muni embættið hefja leit að húsnæði til að hýsa kosninguna síðustu þrjár vikur fyrir kjördag.

Utankjörfundaratkvæðagreiðsla fyrir alþingiskosningarnar síðasta haust fór fram í Smáralind í fyrsta sinn, en ekki hefur verið ákveðið hvort sama staðsetning verði fyrir valinu nú. Þórólfur segist vera reiðubúinn að funda með stjórn SSH um málið.

Ákvörðun sýslumanns var tekin fyrir í borgarráði í gær sem er sama sinnis og stjórn SSH. Reykjavíkurborg hefur boðið ráðhúsið undir kjörstað.

Páll segir að búið sé að senda niðurstöðu SSH ásamt ítrekun á boði Reykjavíkurborgar um ráðhúsið sem kjörstað til sýslumanns. Aðspurður um næstu skref segir Páll: „Ég skal ekkert um það segja, það eina sem liggur fyrir er að sýslumaður var með tillögu um aðvera með einn kjörstað, stjórn SSH leggst gegn því. Sýslumaður verður þá bara að endurmeta sína afstöðu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert