Kosið um tillögu kjörnefndar

Valhöll, höfuðstöðvar Sjálfstæðisflokksins.
Valhöll, höfuðstöðvar Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vörður, fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, fundar í dag klukkan 17:15 í Valhöll, höfuðstöðvum Sjálfstæðisflokksins við Háaleitisbraut í Reykjavík, þar sem lögð verður fram tillaga kjörnefndar að framboðslista vegna borgarstjórnarkosninganna í vor.

Leiðtogakjör fór fram hjá Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík í síðasta mánuði og bar Eyþór Arnalds þar sigur úr býtum. Kjörnefnd hóf í kjölfarið vinnu við tillögu að framboðslista frá öðru sæti og niður úr og liggur tillagan fyrir. Fréttir herma að Hildur Björnsdóttir lögfræðingur sé í öðru sæti í tillögu nefndarinnar og Valgerður Sigurðardóttir í þriðja sætinu.

Þá mun Egill Þór Jónsson verma fjórða sætið, Marta Guðjónsdóttir það fimmta, Katrín Atladóttir það sjötta, Örn Þórðarson það sjöunda, Björn Gíslason það áttunda, Jórun Pála Jónasdóttir níunda sætið og Alda Vilhjálmsdóttir það tíunda.

Kosið verður um tillögu kjörnefndar á fundi fulltrúaráðsins og er búist við að líflegar umræður kunni að skapast um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert