Áfram flugvallarvinir þrátt fyrir breytt nafn

Ingvar Mar Jónsson, oddviti lista Framsóknar í Reykjavík.
Ingvar Mar Jónsson, oddviti lista Framsóknar í Reykjavík. Ljósmynd/Aðsend

Framsóknarflokkurinn í Reykjavík mun ekki bjóða sig fram undir merkjum flugvallarvina líkt og flokkurinn gerði í síðustu sveitarstjórnarkosningum, en áherslur hans í málefnum Reykjavíkurflugvallar verða áfram hin sömu. Þetta staðfestir Ingvar Mar Jónsson, oddviti lista flokksins, í samtali við mbl.is, en Framsókn í Reykjavík kynnti sex efstu á framboðslista sínum í gær.

Ingvar Mar, sem sjálfur er flugstjóri, segir að ákvörðunin um nafn framboðsins hafi verið tekin af kjördæmasambandi Framsóknarflokksins í Reykjavík, en ítrekar að því fylgi engin breyting í stefnu flokksins í flugvallarmálinu. „Ég er mikill flugvallarvinur og mun áfram tala fyrir veru hans í Vatnsmýri,“ segir Ingvar.

Framsókn og flugvallarvinir buðu fram undir sameiginlegu nafni síðast og fengu tvo fulltrúa kjörna, þær Sveinbjörgu B. Sveinbjörnsdóttur og Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttur. Hafði flokkurinn ekki fengið neinn kjörinn borgarfulltrúa fjórum árum áður.

Fulltrúar flokksins yfirgáfu hann þó áður en tímabilið kláraðist. Sveinbjörg sagði sig úr Framsóknarflokknum í ágúst í fyrra og rúmlega mánuði síðar gekk Guðfinna úr flokknum og sagðist styðja Miðflokkinn. Hún gerði þó samkomulag við borgarmálahópinn að hún myndi sitja áfram sem borgarfulltrúi listans. Hefði flokkurinn annars tapað öllum 21 áheyrnarfulltrúum sínum í nefndum og ráðum borgarinnar. Sagði Sveinbjörg við úrsögnina að hún teldi framsóknarmenn skorta sann­fær­ingu þegar þeir eru innt­ir eft­ir af­stöðu sinni til mál­efna hæl­is­leit­enda.

Á meðal efstu sex sem eru núna á lista Framsóknarflokksins er Ingvar Mar sá eini sem bauð sig fram fyrir Framsókn og flugvallarvini fyrir fjórum árum. Var hann þá í sjötta sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert