VG með forval í Reykjavík á morgun

Frambjóðendur í forvali Vinstri grænna í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningar.
Frambjóðendur í forvali Vinstri grænna í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningar. Skjáskot/vgr.is

Á morgun fer fram rafrænt forval hjá Vinstri grænum í Reykjavík, en valið verður í efstu fimm sæti framboðslista hreyfingarinnar til borgarstjórnarkosninga. Valið er leiðbeinandi og leggur kjörnefnd endanlegan lista 46 frambjóðenda fyrir félagsfund VG í Reykjavík í samræmi við lög og stefnu hreyfingarinnar.

Í tilkynningu frá Vinstri grænum kemur fram að ellefu manns keppi um sæti. Sóley Tómasdóttir, sem var oddviti flokksins í síðustu kosningum, býður sig ekki fram og því verður nýr oddviti valinn. Líf Magneudóttir borgarfulltrúi er ein í framboði í 1. sæti. Nokkrir eru að bjóða sig fram í fyrsta skipti.

Rafræna forvalið fer fram á heimasíðu Vinstri grænna í Reykjavík og hefst á miðnætti og stendur til klukkan 17:00.  Í boði er líka að kjósa á skrifstofu Vinstri grænna, á Hallveigarstöðum Túngötu 14, frá 10:00 til 17:00.

Frambjóðendur í forvalinu eru, í stafrófsröð, eftirfarandi:

 • Björn Teitsson, blaðamaður, býður sig fram í 3. sæti.
 • Elín Oddný Sigurðardóttir, varaborgarfulltrúi, býður sig fram í 2. sæti.
 • Guðbjörg Ingunn Magnúsdóttir, grunnskólakennari, býður sig fram í 3.-5. sæti.
 • Gústav Adolf Bergmann Sigurbjörnsson, doktorsnemi, býður sig fram í 2-4. sæti.
 • Hermann Valsson, grunnskólakennari, býður sig fram í 3. sæti.
 • Hreindís Ylva Garðarsdóttir Holm, leikkona, býður sig fram í 4. sæti.
 • Jakob S. Jónsson, leiðsögumaður, býður sig fram í 4-5. sæti.
 • Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi, býður sig fram í 1. sæti.
 • Ragnar Karl Jóhannsson, uppeldis- og tómstundafræðingur, býður sig fram í 4.-5. sæti.
 • René Biasone, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, býður sig fram í 4. sæti.
 • Þorsteinn V. Einarsson, æskulýðsfulltrúi, býður sig fram í 3. sæti.
mbl.is