Sara Dögg leiðir Garðabæjarlistann

Sara Dögg Svanhildardóttir.
Sara Dögg Svanhildardóttir. Ljósmynd/Aðsend

Sara Dögg Svanhildardóttir er oddviti Garðabæjarlistans og leiðir listann sem býður fram í Garðabæ fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.

Þetta kemur fram í tilkynningu.

Sara Dögg er fyrrverandi skólastjóri við grunnskóla Hjallastefnunnar til margra ára. Í dag er hún einn af stofnendum og stjórnendum Arnarskóla ses, sérskóla fyrir börn með þroskafrávik.

„Garðabær er stöndugt sveitarfélag sem býður upp á frábær tækifæri til þess að gera enn betur í þágu allra bæjarbúa. Garðabæjarlistinn vill virkja lýðræðið og auka gagnsæi með þátttöku sinni í bæjarpólitíkinni. Garðabæjarlistinn leggur áherslu á velferð og menntun barna og ungmenna, atvinnutækifæri starfandi kynslóða, lýðheilsu ungra sem eldri og gæði nærsamfélagsins. Garðbæjarlistinn vill að ungt fólk hafi raunverulegt val um að búa í Garðabæ og leita lausna á húsnæðisskorti fyrir ungt fólk,“ segir í tilkynningunni.

Ingvar Arnarson er í öðru sæti á listanum, Harpa Þorsteinsdóttir í þriðja sæti, Halldór Jörgensson í því fjórða og Valbörg Ösp Á. Warén í fimmta sæti.

mbl.is