Ætla að byggja 10.000 íbúðir

Björg Krist­ín Sigþórs­dótt­ir er formaður Höfuðborgarlistans.
Björg Krist­ín Sigþórs­dótt­ir er formaður Höfuðborgarlistans. mbl.is/Kristinn Magnússon

Björg Kristín Sigþórsdóttir, formaður og oddviti Höfuðborgarlistans, segir framboðið ætla að byggja 10.000 íbúðir á komandi kjörtímabili. Framboðið telur borgalínuna vera óábyrgt verkefni.

„Við ætlum byggja 10.000 íbúðir núna fyrir ungt fólk í borginni og við munum gera það á fyrsta kjörtímabilinu og við munum gera það í Grafarholti og Norðlingaholti til dæmis,“ segir hún í samtali við mbl.is.

Borgarlína óábyrgt verkefni

Hún segir framboðið ætla að forgangsraða verkefnum fyrir íbúa. Efst á lista séu mengunarmál og íbúðamál. Þá séu samgöngumál ofarlega á baugi.

Samgöngumál þurfi að horfa á til framtíðar. „Við verðum líka að fara varlega. Við erum lítið land, ég sé ekki að það sé gott að vera að eyða 70-100 milljörðum í eitthvað verkefni sem enginn veit hvað muni skila fólki,“ segir hún og vísar þá til borgarlínu.

„Okkur finnst það óábyrgt að vera að setja svo mikið af skattfé almennings í svona aðgerð þegar ekki vitað hverju hún muni skila,“ segir Björg.

Höfuðborgarlistinn var kynntur fyrir framan Ráðhús Reykjavíkur í dag.
Höfuðborgarlistinn var kynntur fyrir framan Ráðhús Reykjavíkur í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Minni strætisvagna og tíðari ferðir

Frekar eigi að gera umbætur á strætókerfinu. „Ég vil t.d. taka Strætó og gera þá alla umhverfisvæna, minnka þessa vagna þannig það sé ekki eins mikið álag á götunum, minnka svifryk og annað. Við viljum hafa 5-7 mínútur á milli ferða á helstu leiðum til að byrja með.“

Þá vilji þau byggja Sundabraut tafarlaust. „Við þurfum að dreifa aðeins bílunum. Það er talað um [að] það sé svo mikið af bílum en það náttúrulega ekkert skrýtið þegar þeir eru bara allir á sama blettinum.“

6-8 mánuði í hreinsun gatna

Mengunarmál eru einnig ofarlega á lista framboðsins. „Það segir sig sjálft að borgarbúar búa við mikla mengun og þetta getur ekki verið hollt fyrir einn eða neinn. Að heyra í útvarpinu einu sinni í viku að það megi ekki fara út úr húsi, viðkvæmir, aldraðir eða börn á leikskólum. Þetta er náttúrulega bara mjög óeðlilegt í borg og við viljum bara taka til í borginni og við munum taka 6-8 mánuði í það að ná tökum á hreinsun gatna og að hreinsa hér stofnvegi og ná tökum á því.“

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert