Töluverðar hreyfingar frá síðustu kosningum

Fylgi Framsóknarflokksins er mest á hreyfingu.
Fylgi Framsóknarflokksins er mest á hreyfingu. mbl.is/Ómar Óskarsson

Næstum helmingur þeirra sem kusu Bjarta framtíð í borgarstjórnarkosningum fyrir fjórum árum ætla nú að kjósa Samfylkinguna og tæpur fjórðungur Viðreisn. Þetta kemur fram í nýrri skoðanakönnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir Morgunblaðið dagana 21. til 27. mars.

47,1 prósent þeirra sem kusu Bjarta framtíð í síðustu kosningum segjast ætla að kjósa Samfylkinguna í vor, en Björt framtíð býður ekki fram lista í ár. 23,5 prósent kjósenda Bjartrar framtíðar segjast ætla að kjósa Viðreisn og 11,8 prósent Vinstri græn. 8,8 prósent fara yfir til Pírata og aðeins 3,9 prósent ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn nú. Önnur framboð fá enn minna fylgi frá Bjartri framtíð.

Kjósendur stærstu flokkanna, Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokks, virðast ætla að halda sig við það sem þeir kusu síðast, en 82,7 prósent þeirra sem kusu Sjálfstæðisflokkinn fyrir fjórum árum ætla að kjósa hann aftur nú. 5,2 prósent þeirra sem kusu Sjálfstæðisflokkinn síðast ætla að kjósa Viðreisn nú.

74 prósent þeirra sem kusu Samfylkinguna síðast ætla að kjósa hana aftur í vor, en 7,8 prósent segjast ætla að kjósa Viðreisn og 6 prósent Sjálfstæðisflokkinn. Þá segjast 5,7 prósent kjósenda Samfylkingarinnar ætla að kjósa VG í vor.

Kjósendur VG virðast vera töluvert hrifnir af stefnu Samfylkingarinnar, en 21,5 prósent þeirra sem kusu flokkinn síðast ætla að kjósa Samfylkinguna í vor. 6,8 prósent ætla að kjósa Pírata.

62,7 þeirra sem kusu Pírata síðast ætla sér að kjósa flokkinn aftur í vor, en 14,7 prósent ætla að kjósa Samfylkinguna. 5,3 prósent ætla að kjósa VG og sama hlutfall Viðreisn.

Þeir sem kusu Framsóknarflokkinn í síðustu borgarstjórnarkosningum virðast síst ætla að halda sig við sama flokk, en aðeins 26,1 prósent þeirra sem kusu flokkinn síðast ætla að kjósa hann aftur nú. 40,6 prósent þeirra sem kusu Framsókn síðast ætla hins vegar að kjósa Miðflokkinn í vor. 23,2 prósent ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn og 7,2 prósent Flokk fólksins.

Hér fyrir neðan er hægt að skoða hvert fylgi flokkanna er að fara, með því að smella á viðkomandi flokk í flettiglugganum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert