Eyþór vinsæll í austri, Dagur í vestri

Eyþór Arnaldsson, leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir sveitarstjórnarkosningarnar og Dagur …
Eyþór Arnaldsson, leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir sveitarstjórnarkosningarnar og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur. Ljósmyndir/mbl.is

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, er sá sem flestir íbúar Reykjavíkur vilja sjá sem borgarstjóra eftir komandi sveitastjórnarkosningar. Hann og Eyþór Arnalds, leiðtogi Sjálfstæðismanna, eru þeir tveir sem flestir vilja sjá sem borgarstjóra, en tæplega þriðjungur kjósenda er enn óviss hvern þeir vilja helst sjá í embættinu.

Nokkur munur er á því hvar Dagur og Eyþór sækja vinsældir sínar, en Dagur nýtur umtalsvert meiri vinsælda í öllum hverfum borgarinnar vestan við Elliðaárnar meðan þeir eru hnífjafnir í Breiðholti. Dagur er örlítið ofar í Árbæ, en fleiri íbúar í Grafarvogi, Grafarholti og Úlfarsárdal telja Eyþór hins vegar vænlegri kost sem borgarstjóra.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í niðurstöðum nýrrar könnunar Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands sem unnin var fyrir Morgunblaðið og mbl.is og birtist í dag.

Eins og sjá má á meðfylgjandi myndriti munar talsvert miklu á vinsældum leiðtoga framboða stjórnmálaflokkanna eftir hverfum.

 Í heildina vilja 46,4% þeirra borgarbúa sem tóku afstöðu að Dagur verði borgarstjóri. 29,5% vilja að Eyþór setjist í stólinn eftir kosningar, 7,1% að Vigdís Hauksdóttir, leiðtogi Miðflokksins verði Borgarstjóri og 6,4% að Líf Magneudóttir, leiðtogi Vinstri grænna taki við embættinu. 27,6% af þeim sem svöruðu eru þó enn óákveðnir. Aðrir leiðtogar eru með undir 5%.

Almennt telja kjósendur að leiðtogi þess framboðs sem þeir ætla að kjósa sé vænlegasti borgarstjórinn, en í tilfelli Vinstri grænna telja þó fleiri að Dagur eigi að sitja áfram sem borgarstjóri en að Líf Magneudóttir, leiðtogi flokksins í borginni, taki við embættinu.

Meðal þeirra kjósenda sem segjast óákveðnir um hvaða flokk þeir ætla að kjósa er einnig mikil óvissa með hvaða oddvita þeir telja vænlegastan sem borgarstjóra, en 74,5% þeirra sögðust ekki vita hvern þeir vildu í embættið. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert